laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vottun í tuttugu ár

6. nóvember 2017 kl. 07:00

Mikil alúð er lögð í fiskvinnslu og alla meðferð sjávarfangs hér á landi. MYND/HAG

Fjórtán prósents alls afla sem landað er í heiminum er með MSC-vottun. Fulltrúi frá MSC fékk óblíðar móttökur hér á landi fyrir tuttugu árum.

Fulltrúi frá MSC fékk óblíðar móttökur hér á landi fyrir tuttugu árum. Mikil breyting hefur orðið á afstöðu manna til vottunarstarfsins síðan þá. Ísland er nú með vottun á átta tegundum veiða.

Fyrir tuttugu árum var stofnað í Bretlandi einkafyrirtækið Marine Stewardship Council, eða Sjávarnytjaráðið eins og það hefur verið nefnt á íslensku, sem hefur mótað og haft umsjón með alþjóðlegum vottunarstaðli fyrir sjálfbærar veiðar.

Á þessum tuttugu árum sem liðin eru hefur sá árangur náðst að nú eru í gildi meira en 400 vottanir á veiðum gagnvart MSC-staðlinum á heimsvísu. Vottanir þessar ná til meira en 14 prósent alls afla sem landað er í heiminum og stefnt er að því að þetta hlutfall verði komið upp í 20 prósent árið 2020.

Á síðasta ári keyptu neytendur rúmlega 730 þúsund tonn af MSC-vottuðu sjávarfangi og greiddu fyrir það samtals 5,6 milljarða dala, eða hátt í 590 milljarða króna.

Viðmiðunarreglur MSC eru byggðar á siðareglum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um ábyrgð í fiskimálum, sem samþykktar voru í Róm árið 1995. Þessar siðareglur eru í reynd sá grunnur sem allt vottunarstarfið byggist á.

Til þess að fá vottun gagnvart MSC-staðlinum á tilteknar fiskveiðar fer í gang ákveðið ferli. Hér á landi eru það samtökin Iceland Sustainable Fisheries sem sjá um að sækja um MSC-vottun fyrir sjávarútveginn, bæði fyrir veiðar og veiðarfæri, en vottunarstofan Tún og aðrar sjálfstæðar og faggildar vottunarstofur hafa séð um að meta og taka út fiskveiðar við Ísland samkvæmt þeim kröfum sem MSC-staðallinn gerir.

Íslenskur sjávarútvegur stendur framarlega á heimsvísu í vottun sjálfbærra veiða og í mörgum tilvikum orðið fyrsta þjóðin til að fá vottanir á ýmsar tegundir.

Óblíðar móttökur
Á alþjóðlegu sjávarútvegsráðstefnunni World Seafood Congress, sem haldin var hér á landi í september síðastliðnum tók meðal annarra til máls Carl Christian Schmidt, sem á sínum tíma tók virkan þátt í stofnun MSC.

Hann rifjaði upp að hann hafi fengið óblíðar móttökur hér á landi fyrir tuttugu árum, um það leyti sem MSC var að byrja með vottunarþjónustu sína.

„Þegar ég kom þá til Keflavíkur tóku á móti mér reiðir fjölmiðlamenn. Það var mikil reiði hér í samfélaginu þá út í okkur,“ sagði hann. „Þetta segir hann gjörbreytt núna. Menn eru fyrir löngu farnir að átta sig á mikilvægi þess að veiðarnar séu sjálfbærar.“

Ekki er svo langt hagsmunaaðilar innan íslensks sjávarútvegs voru margir hverjir enn mjög efins um vottun MSC, en á fáum árum hefur Ísland haft frumkvæði og verið fyrstir í heiminum til að fá vottun á veiðum á átta tegundum; karfa, grásleppu, löngu, keilu, steinbít, blálöngu, loðnu og kola.

„Það lætur nærri að Ísland sé að verða mest vottaða fiskveiðiþjóð í heiminum og þar með trúlega ein sjálfbærasta fiskveiðiþjóðin, sem ætti að vera gott veganesti á markaði fyrir okkar vörur,“ sagði Gísli Gíslason, en hann er ráðgjafi MSC á Íslandi, þegar Fiskifréttir ræddu við hann í haust.

Markaðsþrýstingur
Lykillinn að þeim árangri sem náðst hefur virðist vera sú tenging við markaðinn sem frá upphafi hefur verið keppikefli MSC. Æ fleiri stórfyrirtæki á matvælamarkaðnum bætast í hóp þeirra sem setja MSC-vottun sem skilyrði viðskipta við framleiðendur sjávarafurða. Útgerðarfyrirtæki, eldisfyrirtæki og vinnslufyrirtæki eru farin að þurfa að laga sig að þessum kröfum frá markaðnum.

„Hugsjón MSC hefur ávallt verið að virkja markaðinn og ef hann gerir kröfu um MSC vottun, þá mun á endanum ofveiði í heimshöfunum heyra sögunni til,“ sagði Gísli Gíslason í viðtali í tímariti Fiskifrétta nú í haust.

Fyrir sitt leyti hefur markaðurinn þurft að laga sig að kröfum frá neytendum, þannig að ákveðin vitundarvakning meðal almennings er ekki síður rótin að þeim árangri sem náðst hefur, ekki síst varðandi sjávarafurðir.

„Óháðar rannsóknir sýna okkur að neytendur hafa sjálfbærni í forgangi þegar fiskur er keyptur, frekar en þegar að öðrum matvælategundum kemur,“ segir Richard Stobart, yfirmaður markaðsmála hjá MSC. „En góðar fyrirætlanir duga ekki til. Það er spennandi að elda sjávarfang og við viljum hvetja neytendur til að velta því fyrir sér hvernig maturinn þeirra er veiddur og hvernig bláa MSC-merkið hjálpar til við að tryggja að nóg verði til af honum um ókomna tíð.“

Enn er tæpur þriðjungur allra fiskstofna ofveiddur á heimsvísu, svo vitað sé. MSC segir það samt líklega vanmat því víða hafi formlega ekki verið lagt neitt mat á veiðar þannig að upplýsingar um þær skorti.

Á ráðstefnunni í september tók Schmidt fram að alþjóðlega vottunarstarfið sé enn í mótun og margt eftir ógert: „Þetta er í rauninni ungt. Við erum enn að ræða saman og átta okkur á því hvernig best er að gera þetta.“

gudsteinn@fiskifrettir.is