fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vottun makrílveiða fallin

Guðsteinn Bjarnason
31. janúar 2019 kl. 07:00

Makrílveiðar í Norðaustur-Atlantshafi teljast ekki sjálfbærar lengur vegna áralangrar ofveiði sem hefur bitnað á stofnstærðinni. MSC-vottun veiðanna fellur niður 2. mars næstkomandi.

„Þetta er alveg óskaplega sorglegt að þessar ríkustu þjóðir í heimi skuli koma svona fram,“ segir Kristinn Hjálmarsson hjá Iceland Sustainable Fisheries (ISF).

„Hverju sem um er að kenna, þá er niðurstaðan sorgleg.“

Hann segir óvissu hafa verið um bæði makrílinn og norsk-íslensku síldina um nokkurn tíma. Hrygningarstofnarnir séu að fara niður og nú er makríllinn kominn niður fyrir svonefnd aðgerðarmörk.

„Sem þýðir að ekki verður lengur dregið að grípa til aðgerða. Vottunarstofurnar meta það þannig samkvæmt staðlinum, að mótvægisaðgerðirnar dugi ekki til þess að byggja stofninn upp aftur, þannig að hann þoli þetta veiðiálag.“

Árið 2006 veiddu Íslendingar aðeins fjögur þúsund tonn af makríl en síðan 2011 hefur meðalaflinn árlega verið um 160 þúsund tonn. Heildarveiði strandríkjanna hefur á sama tíma aukist úr um það bil 500 til 600 þúsund tonn á ári upp í vel yfir milljón tonn árlega síðan 2014, náði hámarki í tæplega 1,4 milljón tonnum árið 2014 og var líklega rúmlega milljón tonn árið 2018.

Þetta er langt umfram ráðgjöf ICES en framan af virtist stofninn þola það. En síðan tók hann skyndilega að minnka og þá þurfa menn að hugsa sitt ráð. 

Ekkert samkomulag
„Strandríkin hafa ekki komist að samkomulagi um það hvernig á að stjórna veiðunum,“ segir Kristinn, „sem þýðir þá að veiðarnar standast ekki þann hluta sjálfbærnivottunar MSC. Veiðarnar eiga þá ekki lengur möguleika á að halda vottuninni.“

Hann segir það geta orðið langt ferli að endurheimta vottunina.

„Auðvitað fer það eftir því hvernig náttúran bregst við, en það fyrsta sem þyrfti að gera er að fara að ráðgjöf ICES, sem eru 318 þúsund tonn ef ég man rétt fyrir árið 2019. Þegar menn eru búnir að vera að veiða yfir milljón tonn sum árin, þá er þetta dramatísk lækkun. En jafnvel með því að fara að ráðgjöf ICES er spurning hvort stofninn nær vopnum sínum, og hvenær hann myndi gera það. Hvenær hann yrði orðinn nægilega brattur til að fá aftur vottun um sjálfbæra nýtingu.“

Síldin heldur vottun í bili
 Óvissa hefur einnig verið um vottun norsk-íslensku síldarinnar í nokkurn tíma.

„Þar er heldur ekki strandríkjasamkomulag þannig að ef ríkin fara að taka til sín og auka jafnvel sína hlutdeild, þá fer bara á sama veg og með makrílinn. Vottunarstofunum er uppálagt að dæma þetta á varúðarsjónarmiðum, sem eru þá alltaf náttúrunni í hag. Það er aldrei veiðunum í hag. Undanfarnar vikur hefur stefnt í það að vottun norsk-íslenskrar síldar muni einnig falla niður, en uppbyggingarstefna fyrir stofninn virðist standast kröfur staðalsins og við munum halda vottuninni, í öllu falli í eitt ár enn.“

ISF er íslenskt fyrirtæki sem sér um að sækja um MSC-vottanir fyrir íslenskan sjávarútveg. Kristinn Hjálmarsson er eini starfsmaðurinn, en útgerðin hefur staðið sig það vel, að meira en níutíu prósent allra veiða íslenska flotans eru MSC-vottaðar.

Óvissa um grásleppuna
Missir makrílvottunar dregur þetta niður, en þetta er ekki í fyrsta sinn sem flotinn missir MSC-vottun. Snemma á síðasta ári féll niður MSC-vottun íslenskra grásleppuveiða og enn er ekki ljóst hvort eða hvenær vottun þeirra verður endurheimt. Kristinn segir horfurnar ekki sérlega góðar.

„Grásleppan féll út af þremur meðaflategundum, teistu, landsel og útsel. Síðan er reyndar búið að gera helling. Það er til dæmis búið að banna skotveiðar á teistu, og það ætti að vera tiltölulega einfalt að gera þær aðgerðir sem þarf til að útselurinn hressist. Aftur á móti hefur landselnum fækkað svo gríðarlega á síðustu árum, um 30 prósent á örfáum árum frá 2011 og er núna undir stjórnunarmarkmiðum og telur 7.600 dýr. Þannig að ef það er rétt að veiðarnar eru að taka yfir tíu prósent af stofninum á hverju ári, þá er það bara ekki sjálfbært. Það þarf að rannsaka betur og auka þekkinguna þannig að hægt sé að grípa til réttra ráðstana, því stjórnvöld fara ekki í neinar handahófskenndar breytingar, allt verður að byggjast á rannsóknum og þekkingu. Það merkilega er samt að á sama tíma þá er landsel að fjölga í öllum löndum í kringum okkur, þannig að spurningin er hvað annað er í gangi í sjónum,“ segir Kristinn.

„Ég meina, selurinn er með hreifa. Fór hann bara af því hér var ekki nóg að éta? Eða er þetta veiðiálag? Ég held að það viti það enginn fyrir víst.“

Eftir að vottun grásleppunnar féll þurfti að gera viðbragðsáætlun, þar sem lýst er þeim aðgerðum sem vonast er til að dugi til að endurheimta vottunina. 

Skýrslunnar beðið
Um sama leyti hafði ráðuneytið hins vegar skipað svonefnda umgengnisnefnd sem nú hefur skilað til ráðuneytisins tillögum um hvernig minnka megi áhrif veiða á umhverfið. 

Kristinn segir mögulegt, eftir því hverjar tillögurnar eru, að á grunni þeirra megi meta hvort endurheimt vottunar verði möguleg.

„Þessi nefnd var beðin um að skoða sérstaklega grásleppuveiðar. Það varð okkur til happs, og má kannski hafa til marks um hversu vel er staðið að íslenskri fiskveiðistjórnun, að það var verið að skipa þessa umgengnisnefnd um það leyti sem við vorum að missa þessa vottun, þannig að ISF þurfti ekki að standa í því að reka sjálfstæða aðgerðaráætlun. Ráðherra var líka búinn að lýsa því yfir á sama tíma að grásleppuveiðar yrðu endurskoðaðar fyrir vertíðina 2019,“ segir Kristinn.

„Það er bara óskandi að hið opinbera fái nóg af peningum til að reka þessi mál sem best fyrir greinina. Það er mikilvægt að muna að sjálfbærni er forsenda íslenskra fiskveiða og lífsgæðanna sem þær veita okkur. Vottun er einfaldlega afleiðing af því sem vel er gert, en íslensk stjórnvöld og íslenskur sjávarútvegur hafa staðið sig gríðarlega vel í gegnum árin. Í lögum um fiskveiðistjórnun er gengið útfrá því að veiðar séu sjálfbærar og arðbærar, en íslenskur sjávarútvegur er sennilega enn sá eini sem er hvort tveggja í senn, sjálfbær og arðbær.“