sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

VS-afli dregst saman

20. desember 2011 kl. 10:07

Afli utan aflamark eykst vegna ýsuveiða í Barentshafi

Í lok nóvember hafði 472 tonnum verið landað sem VS-afla frá upphafi fiskveiðiárs samanborið við 624 tonn á sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Hluti af andvirði VS-afla greiðist í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Megnið af VS-aflanum var þorskur og dróst sá afli saman um 8% frá sama tímabili í fyrra. Samdráttur í VS-afla í  ýsu, karfa og löngu reyndist um og yfir 50%. Þess má geta að samkvæmt breytingum sem gerðar voru á fiskveiðistjórnunarlöggjöfinni sl. sumar reiknast leyfilegur VS-afli nú fyrir hvern ársfjórðung í stað fiskveiðiársins í heild og ekki er hægt að flytja heimildir í VS-afla á milli ársfjórðunga. 

 Afli sem ekki er skráður til aflamarks hlutaðeigandi fiskiskipa vegna svonefndrar línuívilnunar nam 1.655 tonnum sem er rúmlega 10% aukning frá fyrra ári.

Annar afli utan aflamarks ríflega tvöfaldast miðað við sama tímabil í fyrra, hann fer úr 331 tonni í 729 tonn. Þetta er fyrst og fremst vegna mikils ýsuafla í Barentshafi nú í haust.