þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Yfir 100 fuglar fundist dauðir vegna olíumengunar

6. maí 2020 kl. 10:30

Dauðir fuglar hafa fundist víða og ljóst að það sem rekur á land er aðeins hluti þeirra sem drepist hafa. Mynd/Erpur Snær Hansen

Enn er óljóst hver uppruni olíumengunarinnar er og ekki unnt að meta umfang hennar, segir Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun hefur birt umfjöllun þar sem segir frá því að undanfarnar vikur hafa olíublautir fuglar fundist í fjörum í Vestmannaeyjum og við suðurströndina, aðallega á svæði sem nær frá Víkurfjöru vestur fyrir Dyrhólaey. Fjöldi fugla sem fundist hefur er kominn yfir 100. Sýni af olíublautum fjöðrum hafa verið tekin til að greina gerð olíunnar. Samkvæmt niðurstöðunum er í öllum tilvikum um sams konar gerð svartolíu að ræða.

Fiskifréttir fjölluðu ítarlega um málið á dögunum, eins og má lesa hér.

Í frétt Umhverfisstofnunar segir jafnframt að engin svartolíumengun hefur sést í fjörum þar sem fuglarnir finnast og í flugferðum Landhelgisgæslu Íslands yfir hafsvæðið sunnan við land hefur engin olíumengun sést á yfirborði sjávar. Þá hefur engin olíumengun greinst á hafsvæðinu á gervitunglamyndum sem borist hafa frá Siglingingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA). Því er ennþá óljóst hver uppruni olíumengunarinnar er og ekki unnt að meta umfang hennar.

Umhverfisstofnun hefur í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands og með aðstoð haffræðings hjá Hafrannsóknastofnun nú til skoðunar hvort mengunin gæti tengst skipsflaki undan suðurströndinni. Það mun taka nokkurn tíma að skoða slíkt út frá hafstraumum og öðrum nauðsynlegum gögnum fyrir líkanútreikninga ásamt fyrirliggjandi upplýsingum um staðsetningu skipsflaka á svæðinu. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir verða teknar ákvarðanir um frekari aðgerðir.