þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Yngsti þorskurinn hefur vaxið hægar

Guðsteinn Bjarnason
8. maí 2020 kl. 09:17

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Niðurstöður úr stofnmælingu botnfiska sýna að stofnvísitala þorsks hefur lækkað þriðja árið í röð. Stofninn virðist engu að síður þokkalega haldinn

„Þetta er kannski ekki alveg eins og við vildum hafa það,“ segir Jón Sólmundsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, um stofnvísitölu þorsksins sem nú hefur lækkað þrjú ár í röð.

„Þetta er meira niður núna í ár en við áttum von á, en aðallega eru það árgangarnir 2014 og 2015 sem valda því. Við erum að mæla minna af þeim núna heldur en við áttum von á miðað við hvernig þeir litu út í fyrra. Síðan eru árgangarnir 2013 og 2016 líka fremur lélegir, en það kemur ekkert á óvart því þeir hafa alltaf mælst lélegir. En það er að hluta til þeirra vegna líka sem þetta er að fara niður núna.“

Hafrannsóknastofnun birti í síðustu viku niðurstöður úr stofnmælingu botnfiska sem fram fór dagana 27. febrúar til 20. mars síðastliðna. Einna stærstu tíðindin þar er lækkandi stofnvísitala þorsks, en ennþá er hún þó hærri en hún var á árunum 1990-2010.

Fann nóg af loðnu

Jón er spurður hvort lélegir loðnuárgangar undanfarið tengist eitthvað þessu ástandi á þorskinum.

„Við höfum reyndar í þessum röllum síðustu árin séð þokkalega mikið af loðnu í þorskinum í mars. Hann hefur fundið sér loðnu, virðist vera, enda hefur verið loðna hérna til staðar þó það væri ekki það mikið að það væri hægt að leyfa veiðar. En það er líka gengið út frá því að eitthvað af loðnunni endi í þorskmögum“ segir hann.

„Núna hins vegar vorum við að mæla minna af loðnu í þorskinum heldur en við höfum gert áður, sérstaklega í þessum árgöngum frá 2014 til 2015, sem er svona 50-70 sentimetra þorskur. það var minna af loðnu í honum heldur en undanfarin ár. Það er líka hugsanlegt að minna magn af loðnu valdi því að þorskurinn sé minna veiðanlegur en annars, og það myndi hafa áhrif á mælinguna.“

Jón segir að finni þorskurinn ekki loðnu eigi hann erfitt með að bæta sér það alfarið upp með annarri fæðu. Sérstaklega sé það erfitt núna vegna þess hve lítið er um síli og rækju líka.

„Ungþorskurinn, þessi allra minnsti, getur kannski fundið sér annað. Við sáum að hann var mikið að éta ljósátuna. En þrátt fyrir þetta sjáum við ekki að fiskurinn sé neitt horaður. Hann virðist vera í þokkalegum holdum. Yngsti fiskurinn, eins til þriggja ára þorskur, hefur reyndar verið að vaxa svolítið hægar. Hann hefur verið styttri miðað við aldur heldur en áður.“

Þokkalega haldinn

Jón tekur þó fram að nýjasti þorskárgangurinn sé vel yfir meðallagi í fjölda.

„Það er bara spurning hvort hann helst þannig. Þessir sæmilegu árgangar hafa ekki verið að skila sér nógu vel, en árgangurinn frá 2019 er alla vega nokkuð góður. Svo er mikið af stórum þorski í stofninum ennþá. Eldri aldurshóparnir eru allir yfir meðalstærð, þannig að stofninn er heilbrigður og virðist vera alveg þokkalega haldinn.“

Eitt sem valdið hefur heilabrotum vísindamanna varðandi þorskinn undanfarin ár er að nýliðun hefur ekki vaxið í takt við stækkandi hrygningarstofn. Jón segir engar óyggjandi skýringar á þessu enn liggja fyrir.

„Á móti kemur þó að við erum ekki að sjá mjög lélega árganga. Þegar hrygningarstofninn var mjög lítill þá voru að koma inn mjög lélegir árgangar, en við höfum alla vega verið laus við þá síðustu árin.“

Þorskstofninn virðist vera þokkalega vel haldin þótt vísitalan hafi gengið niður síðustu árin. Mynd/Þorgeir Baldursson