miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsa um allan sjó en vikustopp vegna veiru

22. apríl 2020 kl. 08:00

Helga María AK. Mynd/Brim

Ísfisktogarinn Helga María AK verður nú í viku í landi vegna takmarkaðrar sóknar vegna covid - 19.

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til Reykjavíkur í gærmorgun með nánast fullfermi eða tæplega 180 tonn af fiski. Friðleifur Einarsson skipstjóri segir í viðtali við heimasíðu Brims að sjö til átta kör hafi vantað upp á fullfermi og skrifar hann það á að erfiðlega hafi gengið að veiða þorsk vegna umfangsmikilla lokana hrygningarsvæða.

„Veiðiferðin gekk annars vel. Við vorum í Skerjadjúpi, á Fjöllunum og enduðum svo á Eldeyjarbankanum. Við vorum með mest af ufsa og svo karfa og svo fengum við ýsu og þorsk. Ég veit ekki hvaðan öll þessi ýsa kemur en það er nánast sama hvar trollinu er dýft. Alls staðar er ýsa. Þetta er ekkert smælki heldur mjög vænn og góður fiskur,” segir Friðleifur en hann segir kvótann því miður ekki taka mið af þessari stórauknu ýsugengd og því verði menn að vara sig á að veiða ekki of mikið af ýsu.

Svæðalokanir vegna hrygningar þorsks eru nú að baki þannig að vænta má að þorskveiði glæðist á næstunni. Leifur fagnar því en þó mun líða vika þar til Helga María fer út að nýju.

„Það þarf heldur að draga úr sókninni vegna veirunnar og röðin er komin að okkur að sitja í landi í eina viku. Annars hafa sóttvarnir gengið vonum framar og engin vandamál hafa komið upp,” segir Friðleifur.