laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsan líka til vandræða í Noregi

14. apríl 2014 kl. 12:00

Ýsa

Veiði á löngu og keilu ómöguleg vegna lítils ýsukvóta.

Það er víðar en á Íslandi sem lítill ýsukvóti hefur gert veiðar á öðrum tegundum erfiðar. Í Noregi hefur ýsukvótinn einnig verið skorinn niður á sama tíma og þorskurinn er í uppsveiflu. 

Áður hefur verið greint frá erfiðleikum smærri báta í Noregi við þorskveiðar vegna mikillar ýsugengdar á miðum þeirra. Vandinn er þó ekki bundinn við smábátana.  Í Fiskeribladet/Fiskaren í dag kvartar útgerðarmaður beitningarvélabátsins Veststeinen frá því að ómögulegt sé að stunda veiðar á tegundum eins og löngu og keilu í norsku lögsögunni, milli 62. og 68. breiddargráðu, vegna mikillar ýsugengdar á miðunum. 

„Þetta hefur ekki verið vandamál á síðustu árum meðan ýsukvótinn var stór en nú er hann óskiljanlega lítill og það útilokar veiðar á löngu og keilu vegna þess hve mikið af ýsu fylgir með,“ segir Jarl Magne Silden útgerðarmaður. 

Af þessum ástæðum hrökklaðist bátur hans úr norsku lögsögunni og þar sem ekki var búið að ganga frá samningum Noregs og ESB um gagnkvæmar veiðiheimildir þurfti hann að freista gæfunnar á alþjóðlega hafsvæðinu vestan við Írland.  Veiðarnar þar gengur að vísu vonum framar en útgerðarmaðurinn bendir á að augljóslega sé kostnaðarsamara að flengjast um langan veg eftir löngu og keilu en að veiða þessar tegundir á heimamiðum.