miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsan orðin ófáanleg og fokdýr

Guðsteinn Bjarnason
31. október 2019 kl. 09:27

Ýsa í kari á bryggju. (Mynd: Alfons Finnsson).

Lækkun ýsukvótans um tugi prósenta ásamt makrílhringekjunni í haust hafa komið mörgum einyrkjum og smærri útgerðum í stórfelld vandræði.

„Hún er orðin ófáanleg algerlega og verðið á henni að rjúka upp úr öllu valdi í kjölfarið,“ segir Vilhjálmur Ólafsson um ýsuna. „Allir sem geta sneiða hjá ýsu, enda þýðir ekkert að koma til mín og reyna að biðja mig um hana. Ég á hana ekki til og enginn kollegi minn heldur.“

Vilhjálmur er kvóta- og skipamiðlari, rekur fyrirtækið Aflmark og segir að ástandið núna sé orðið fordæmalaust í íslenskum sjávarútvegi.

Þorlákur Halldórsson, nýkjörinn formaður Landssambands smábátaeigenda, tekur í sama streng.

„Þetta er mjög alvarlegt ástand orðið. Menn eru margir með bátana bundnir við bryggju af því þeir komast ekki á sjó,“ segir hann.

„Það virðist ekki losna neitt um neinar heimildir, enginn vill láta neitt frá sér. Staðreyndin er sú að það er búið að veiða nánast upp á kíló sama magn og var búið að veiða í fyrra, en miðað við úthlutun er hlutfallið miklu hærra. Menn eru að reyna að forðast hana margir hverjir, þeir sem eru að reyna að róa, og aðrir róa ekki. Samt lítur þetta svona út.“

Þrennt veldur
Vilhjálmur í Aflmarki segir þrennt valda því að ýsukvóti fáist ekki leigður, nema þá fyrir verð sem jafnast á við þorsk.

„Þeir hafrannsóknarmenn viðurkenna það að hafa reiknað vitlaust afkomu síðustu ára, þess vegna eru þeir að skera niður kvóta þessa árs. Annað kom síðan til sem var að Alþjóðahafrannsóknarráðið gerði þá kröfu að þeir breyttu aflareglunni og gæfu út minni kvóta. Út af þessum tveimur ástæðum ákváðu þeir að skera nður kvótann um 40 prósent milli ára, sem er skelfilega mikið í svona litlum stofni. Svo hitt að menn fara í þær æfingar um áramótin að færa ýsu úr litla kerfi upp í stóra kerfið.“

Þar á hann við makrílhringekjuna svokölluðu sem fór af stað í haust, „sem ráðherrann síðan góðu heilli stoppaði af því þetta hefði þýtt gríðarlega stóran nagla í líkkistu krókakerfisins. Sennilega síðasta naglann sem þurfti til þess að líkið væri endanlega dautt.”

Leiguverðið í 280 krónur
Hann segir leiguverðið á ýsunni komið upp í 280 krónur, en á sama tíma í fyrra voru menn að leigja ýsukvótann á 45 krónur.

„Menn verða að átta sig á því að þetta er orðin dýr vara, jafnvel dýrari en þorskurinn. Ég hefði ekki haft hugmyndaflug í að segja mér það fyrir þremur vikum síðan að ýsuleigan færi í 280 kall í stóra kerfinu. En það er staðreynd.“

Þorlákur segir enga lausn vera í sjónmáli.

„Ráðherra vildi ekki gera neitt, við erum búnir að hamra á honum. Hann segir bara að annað hvort verðum við að breyta útgerðarmynstri eða leggja bátunum.“

Vilhjálmur skorar þó eindregið á ráðherra að grípa fram fyrir hendurnar á Hafrannsóknastofnun og hækka kvótann um 20 prósent eða svo.

„Þetta myndi gjörbreyta stöðunni og það setur ýsuna ekki í neina hættu þótt menn fresti þessu í eitt ár.“