mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsan stjórnar stærð síldarstofnsins á Georgsbanka

17. ágúst 2011 kl. 11:13

Ýsa

Étur hrogn síldarinnar og heldur þar með stofninum í skefjum

Vísindamenn á vegum bandarísku stofnunarinnar NOAA, sem hefur sjávarútvegs- og umhverfismál á sinni könnu, hafa þróað líkan sem tengir stofnstærð síldar við stærð ýsustofnsins. Líkanið sýnir að afrán ýsu á hrognum hefur mikil áhrif á stöðugleika síldar á Georgsbanka. Þessar upplýsingar koma fram á vef ScienceDaily.

Síldin hrygnir á sjávarbotni en eftir tvær til þrjár vikur klekjast hrognin út og lirfurnar leita upp í sjó. Ýsan étur flest sem að kjafti kemur sem kunnugt er en hún treystir einkum á hrognin á hrygningartíma síldarinnar.

Vísindamenn hafa kannað fjölda síldarlirfa um langt árabil. Hingað til hefur breytileikinn í fjölda lirfa aðallega verið tengdur breytileika í stærð hrygningarstofns síldarinnar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna hins vegar að breytileiki í fjölda lirfa er að mestu háður stærð ýsustofnsins. Þegar síldarstofninn er stór en ýsustofninn er í lægð lifa nægilega margar lirfur til að síldarstofninn blómstri. Þegar hrygningarstofn síldar er lítill og ýsustofninn stór eru flest hrognin étin áður en þau klekjast út.

Vísindamennirnir benda á að haga þurfi stjórn síldveiða í samræmi við þetta. Hófsamar veiðar geti jafnvel skaðað síldarstofninn þegar ýsustofninn er stór.