föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsu- og ufsaveiðar við Ísland vottaðar

2. október 2013 kl. 13:23

Ýsa

Vottunin er unnin undir merkjum Iceland Responsible Fisheries

Veiðar Íslendinga á ýsu og ufsa í íslenskri fiskveiðilögsögu hafa hlotið vottun sem byggir á ströngustu kröfum sem settar eru á alþjóðavettvangi. Vottunin, sem er unnin undir merkjum Iceland Responsible Fisheries, staðfestir ábyrga fiskveiðistjórnun og góða umgengni um auðlindir sjávar. 

Að sögn Gunnars Tómassonar, formanns Ábyrgra fiskveiða ses., er vottunin á þessum tveimur fiskistofnum, ýsu og ufsa, mikilvæg fyrir íslenskan sjávarútveg sem fær staðfest að greinin mætir kröfum markaðarins um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra auðlinda. 

„Ég er mjög ánægður með að íslensk stjórnvöld hafi sett aflareglu fyrir ýsu- og ufsaveiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu en það var forsenda vottunarinnar. Í framhaldinu hefur fengist vottun óháðs vottunaraðila, samkvæmt ströngustu alþjóðlegum kröfum sem staðfestir vandaða stjórnun veiða Íslendinga á ýsu og ufsa.“ 

Global Trust Certification á Írlandi, sem heyrir undir alþjóðlega vottunarfyrirtækið SAI Global og er með starfsemi í fjölmörgum löndum, vann úttektina og gaf út vottunarskírteini fyrir veiðar á ýsu og ufsa, en áður hafa þorskveiðarnar verið vottaðar undir merkjum Iceland Responsible Fisheries.