föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsuvandinn ekki nýr

Guðsteinn Bjarnason
26. nóvember 2019 kl. 12:00

Ýsa í kari á bryggju. (Mynd: Alfons Finnsson).

Smábátasjómenn enn á flótta undan ýsunni

Undanfarnar vikur hafa sjómenn víða lent í verulegum vandræðum við þorskveiðar vegna þess hve mikið er af ýsu á slóðinni. Ýsukvótinn er orðinn svo dýr og torfenginn að margir sjá fátt annað í stöðunni en að hætta veiðum.

Fiskifréttir hafa áður fjallað um þessa stöðu og Landssamband smábátaeigenda (LS) greinir frá því að sumir hafi „gripið til þeirra ráða að færa sig af hefðbundinni veiðislóð yfir á svæði sem lítil von er að fá ýsu. Það hefur stundum dugað og stundum ekki, en alltaf leitt til aukins útgerðarkostnaðar, sem ekki er hægt að sætta sig við.“

Þorlákur Halldórsson, nýr formaður LS, segir þetta reyndar ekki í fyrsta sinn sem þessi vandi kemur upp.

„Nú erum við held ég að taka þriðja snúninginn í þessu frá því ég byrja í útgerð sem þessi staða kemur upp að menn geta ekki róið,“ sagði hann þegar Fiskifréttir ræddu við hann um daginn.

Bíða til áramóta

„Fyrsta skiptið var um 2000 þegar smábátarnir eru kvótasettir í ýsunni. Sjálfur gat ég ekki róið í hálft ár á þeim tíma, það fékkst engin ýsa og leigan á því litla sem fékkst var dýrari en þorskurinn.“

Aftur kom upp svipað ástand fyrir fimm eða sex árum, segir Þorlákur.

„Einhverra hluta vegna gerist það að það verður óvenju mikil ýsa víða. Menn eru að sjá ýsu á stöðum sem menn hafa ekki verið að veiða hana undanfarin ár.“

Þorlákur segist ekki ekki sjá annað en menn verði bara að bíða þangað til ýsan á slóðinni minnkar. „Hún gerir það alltaf um og eftir áramótin, þá minnkar hún og vertíðarfiskurinn fer að ganga.“

LS greinir frá því á vef sínum að veiðiheimildir í ýsu á grundvelli hlutdeildar og þess sem fært var milli ára séu nú rúmum fjórðungi minni en þær voru á sl. fiskveiðiári. Hlutfall veiðiheimilda í ýsu á móti þorski sé nú aðeins 16%.

„Frá upphafi krókaaflamarks 1. september 2001 hefur hlutfallið hæst farið í 81% fiskveiðiárið 2007/2008, en hefur verið lægra en 20% frá 2012/2013 ef síðasta ár er undanskilið en þá var það 23%.“