þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsuvandræði í Noregi

15. apríl 2013 kl. 15:16

Ýsa

Norskir útvegsmenn vilja að ýsukvótinn verði aukin vegna mikillar veiði og erfiðleika vegna meðafla í ýsu

 

Fleiri eru í vandræðum vegna mikils meðafla í ýsu en íslenskir sjómenn. Samtök norskra útvegsmanna hafa nú óskað eftir því að ýsukvótinn við Noreg verði aukinn. Þau segja að margt bendi til þess að ýsustofninn við Noreg sé í betra ástandi en fram komi í ástandsskýrslu Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) fyrir árið 2013. 

Samtökin benda á að aflatölur í ýsu sýni að ýsan sé mjög veiðanleg við strendur Noregs og sömu sögu sé að segja í Barentshafi. Heildarýsukvótinn hafi verið ákveðinn 200 þúsund tonn fyrir árið 2013 sem sé í raun 38 þúsund tonnum minna en heimilt sé samkvæmt nýtingarreglu. Miðað við ýsukvótann árið 2012 sé heildarkvótinn hins vegar 118 þúsund tonnum minni.

Útvegsmenn segja að mörg skip muni komast í vandræði í haust þar sem viðbúið sé að meðafli í ýsu við þorskveiðar og veiðar á fleiri tegundum haldi áfram að vera mikill. Mörg skip hafi nú þegar neyðst til að yfirgefa hefðbundin mið meðfram ströndinni þar sem meðafli í ýsu hafi verið of mikill. 

Samtök norskra útvegsmanna telja að norska sjávarútvegsráðuneytið eigi að fara fram á að ICES endurmeti ýsukvóta ársins 2013 og kanni vísindalegan grunn fyrir því að ýsukvótinn verði aukinn í 238 þúsund tonn í samræmi við stjórnunarreglur.