Mál albanskrar fjölskyldu, sem flutt var úr landi eftir að hælisumsókn hennar var hafnað, var afar áberandi í fjölmiðlum, ekki síst vegna þess að þar var kasólétt kona og tveggja ára sonur hennar. Fréttaflutningurinn var í upphafi nokkuð því marki brenndur að samtökin No Borders voru eina heimildin. Þau eru vitaskuld ekki fyllilega óvilhöll, en þegar öðrum heimildum er ekki til að dreifa þurfa fjölmiðlar að gera sér slíkt að góðu, svona með hefðbundinni kostgæfni og varfærni í vinnubrögðum.

Skjótt mátti þó finna eitt og annað um málið og fyrr en varði voru fleiri tilbúnir til þess að tjá sig um það. Sumt var það þó frekar álit en staðfest frásögn, sem í málum af þessu tagi getur verið varhugavert, sér í lagi þegar margar staðreyndir málsins eru á huldu og ekki einu sinni víst að þær fáist upplýstar, þar sem um viðkvæm einkamál getur verið að ræða og stjórnvöldum ókleift að segja allt af létta. Hvað þá þegar verið var að reyna að knýja dómsmálaráðherra til sagna, sem þó mátti ljóst vera að gæti á því stigi lítið ef nokkuð um þetta einstaka mál vitað, en er þar fyrir utan örðugt eða óheimilt að tjá sig um einstök mál, sem eru á forræði hans eða undirstofnana ráðuneytisins.

Mönnum kann að vera mikið niðri fyrir og þykja brýnt að fá upplýsingar um málsástæður eða afstöðu ráðherra, en þeir þurfa þó að sýna því skilning að menn vita ekki alltaf, geta eða mega segja allt af létta.

* * *

Annað í málinu vakti athygli fjölmiðlarýnis, en það var mynd af umræddum dreng þar sem hann var staddur ásamt foreldrum sínum á lögreglustöð í Albaníu, nokkuð nöturlegri að sjá, þar sem hann kúldraðist á bak við stól úti í horni. Þetta þótti ýmsum til marks um eitthvað, þó á myndinni glitti raunar einnig í leikteppi með leikföngum.

Það var No Borders, sem dreifði þessarri mynd, sem ljóslega var tekin af öðrum hvoru foreldrinu og send til Íslands. Fjölmiðlar, sem ekki höfðu öðrum myndum til að dreifa, birtu hana vitaskuld. Það er erfitt að segja til um hvað annað þeir gátu gert, en samt blasir við að þarna var verið að stýra fréttunum í ákveðinn farveg með þessarri myndbirtingu. Það er ekki hægt að álasa No Borders fyrir það, samtökin eru að berjast fyrir tilteknum málstað, en sennilega hefðu fjölmiðlar mátt doka eilítið við. Foreldrarnir höfðu augljóslega síma á sér, þannig var myndin tekin og send, svo hefði ekki verið ráð að biðja No Borders um númerið og taka stöðuna? Úr því hefði orðið betri frétt og aukin heldur frétt sem viðkomandi miðill átti sjálfur.

* * *

Þetta með að doka við, er eitt af því sem blaðamenn mega ekki vanrækja. Jú, það er mikilvægt að vera fyrstur með fréttina, en hún þarf að vera rétt. Þegar eitthvað er of gott til að vera satt, þá er yfirleitt þannig í pottinn búið. Og jafnvel þegar eitthvað virðist standa sem stafur á bók, þá þarf samt að staðfesta það. Þá gildir einu hvað heimildamaðurinn virðist traustur og vel tengdur, því þeim mun tengdari sem hann er málinu, þeim mun líklegra er að hann hafi hagsmuni af því eða söguþræðinum um það.

Þetta kom í hugann í framhaldi af umfjöllun um málefni Kastljóss, Seðlabankans og Samherja, sem vikið var að hér í síðustu viku. Það er nefnilega gamall vandi og nýr með heimildarmenn í helgustu véum, að blaðamenn geta orðið þeim háðir. Jafnt hjá sérstökum og Seðlabanka sem minni spámönnum mannlífsins. Um það þurfa allir blaðamenn að vera sér meðvitaðir um og vara sig sérstaklega á. Fréttirnar og skúbbin geta verið ómótstæðilega freistandi en þær þarf samt að staðfesta og sannreyna. Og ekki gleyma því heldur að heimildin er sjaldnast óvilhöll. Einstakir blaðamenn geta síðan orðið svo tengdir frásögninni, svo mikið undir að þeir segi hana, að þeir kunna að gleyma sér og fara óvarlegar en ella. Það er bara mannlegt. En þá reynir á fréttastjórana, sem eiga að hafa nægilega yfirsýn, reynslu og ábyrgð til að segja „dokum við“. Er þetta allt rétt, eru tvær eða fleiri sjálfstæðar heimildir, sem ekki má rekja til sama staðar og svo framvegis?

Í þessu furðulega máli er svo annað, sem er eins og menn gleymi reglulega, en það er að það var ekki aðeins svo að einhver spaði í Seðlabankanum væri heimildamaður Kastljóss heldur voru Kastljósmenn hinir upphaflegu heimildarmenn Seðlabankans og það var fyrir þeirra orð og eftirgrennslan, sem Seðlabankinn hóf hina vanhugsuðu rannsókn sína. Um það er ekki deilt, fyrir því eru orð bæði Kastljósmanna og fyrrv. Seðlabankastjóra.

Fréttamenn eiga að segja fréttir af því sem þeir komast á snoðir um og fréttnæmt þykir. Ekki að vera tipsterar fyrir lögguna eða Seðló með ömurlegum afleiðingum fyrir alla hlutaðeigandi.

* * *

Dr. Lára Magnúsardóttir var í Vikulokum Ríkisútvarpsins um liðna helgi, en þar voru m.a. rædd ýmis mál tengd þjóðkirkjunni. Hjá henni kom m.a. ffram athyglisvert sjónarmið um vinnubrögð og viðmælendur fjölmiðla, sem sagt að þeir hefðu hagsmuni af því að ýta undir átök og andmæli fremur en réttar frásagnir, samtöl hvað þá að mál yrðu til lykta leidd. Þar benti hún t.d. á að þegar málefni þjóðkirkjunnar kæmust í fréttir, þá brygðist það varla að fulltrúi Siðmenntar, liðlega tvö þúsund manna sértrúarsafnaðar, væri kallaður til álitsgjafar, líkt og það væri sérfræðifélag um lútersk evanglíska kirkju eða kristni almennt. Sem auðvitað fer fjarri, líkt og ævinlega kemur á daginn. Þetta er rétt athugað hjá dr. Láru. Þetta er álíka klikkað og að efna aldrei til vínsmökkunar án þess að kalla Bindindishreyfinguna til.

* * *

Yfir í allt annað. Þeim lesendum, sem nálgast geta efni HBO eftir krókaleiðum netsins, skal bent á að önnur þáttaröð Succession er komin út. Þar er fjallað um fjölskylduátök í fjölmiðlaveldi Logans Roy (leikinn af Brian Cox), sem er lauslega byggður á fjölmiðlakónginum Rupert Murdoch með slettu af hinum og þessum meisturum öðrum, allt frá W.R.Hearst til Conrad Black, en sumt er sótt í hið sérkennilega ættarveldi Donalds Trumps. Þættirnir eru langt í frá sannsögulegir, en um margt trúverðugir og afbragðssjónvarpsefni, sem óhætt er að mæla með.

Fjölmiðlarýni Andrésar Magnússonar birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .