Hvernig gengur okkur sem þjóðfélagi að vinna gegn staðalímyndum, taka á úreltum skaðlegum hugsunarhætti og nýta þann kraft og innblástur sem fjölbreytni hefur í för með sér?

Ég heyri því reglulega fleygt fram að konur séu ekki eins virkar í því að byggja upp tengslanet og karlar. Fagleg tengsl séu veikari og ekki jafn öflug, samböndin öðruvísi og að á meðal kvenna tíðkist síður að hafa samband við fólk í tengslanetinu eða leggja sig fram um að sinna því og byggja upp. Er eitthvað til í því að tengslanet kvenna séu með öðrum hætti en karla? Erum við ekki að nýta okkur allan kraftinn sem við getum sótt til jafningja, fyrirmynda, „mentora" og þeirra sem hafa reynsluna?

Hér er ekki um að ræða mjúk mál. Það er bæði viðurkennt og sannað að það er beinn samfélags- og efnahagslegur ávinningur af jafnrétti. Við sem fámenn þjóð verðum að nýta alla þá hæfileika, þekkingu og kraft sem mögulegt er. Þetta verður að vera samvinnuverkefni einstaklinga, fyrirtækja og fjölmiðla, hér þurfa allir að horfa inn á við. Hvernig ert þú að standa þig?

Það er óþarfi að við konur rekumst allar á sömu hindranirnar. Það tefur fyrir árangri og framþróun sem skiptir máli fyrir þjóðfélagið og ekki síst það mikilvæga mál að öflugar fyrirmyndir fái tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Þar skiptir stuðningur og tengslanet máli.

Á undanförnum árum hafa verið tekin framfaraskref í átt að uppbyggingu samfélags sem gerir sér grein fyrir því að til að ná efnahagslegum árangri er nauðsynlegt að til staðar séu sterkar fyrirmyndir og fjölbreytileiki. Það er ekki tími fyrir meðvirkni eða innantómt tal á hátíðisdögum. Förum ekki á mis við þann efnahagslega ávinning sem felst í fjölbreytileikanum. Nýtum allan mannauðinn, þekkinguna og reynsluna. Höldum áfram og gerum enn betur.

Við þurfum á öllu okkar öfluga og ástríðufulla fólki að halda, af öllum kynjum - fólki sem er tilbúið til þess að láta til sín taka. Þannig náum við lengra. Um leið og sagt er: „þetta hefur alltaf verið svona" - þarf að skoða málið betur. Nýtum þekkingu, byggjum á reynslu en höfum þor til að breyta og gera hlutina á ferskan og kraftmikinn hátt.

Það er allra hagur!

Greinin er skrifuð í tilefni af Viðurkenningarhátíð FKA.

Höfundur er formaður FKA Framtíðar og forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins.