Á síðustu misserum hafa meginvextir Seðlabanka Íslands lækkað umtalsvert. Í byrjun árs 2016 voru vextirnir 5,75% en eru í dag 3,0%. Þeir hafa því lækkað um tæp 48% á fjórum árum. Búast má við að vextir haldist áfram lágir og ekki útilokað að þeir lækki enn frekar. Lágir vextir eru mikið fagnaðarefni. Ódýrara fjármagn er drifkraftur fyrir efnahagslífið, fjárfesting eykst og atvinnustig hækkar. Allir vinna, ekki satt?

Harmsaga innlánseigandans

En á sama tíma og vextir Seðlabankans lækka, lækkar ávöxtun innlána – eðlilega. Vaxtalækkunarhrina verður að harmleik innlánseigandans sem kvartar hástöfum. En þessi þróun er síður en svo ógnvekjandi fyrir allan sparnað. Eigendur skuldabréfa og hlutabréfa fagna. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkar á markaði og núvirði fjárflæðis skuldabréfanna hækkar í verði. Á sama tíma fagna eigendur hlutabréfa, núvirði arðgreiðslna eykst með lækkandi vöxtum auk þess sem rekstrarumhverfi fyrirtækja ætti að batna með lækkandi vaxtastigi . Af þessum sökum er gott að binda sparnað í verðbréfum en ekki eingöngu innlánum. Þetta gera lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar á fjármálamarkaði með góðum árangri.

Áskrift að sparnaði

Síðustu ár hafa myndað eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Kaupmáttur hefur á aðeins fimm árum aukist um tæp 30% og sparnaður aukist samhliða því. Skuldir hins opinbera og heimila hafa stórlækkað. Innlán heimila nálgast 1.000 milljarða óðfluga. Margir hafa á síðustu misserum farið þá leið að greiða mánaðarlega í áskrift að sjóðum og litið á sparnað sem hluta af eyðslu sinni. Af hverju ekki að eyða í sparnað í fjárfestingasjóðum – í það minnsta í bland við hefðbundinn innlánssparnað? Í dag er algengt að innlánsvextir á veltureikningum séu undir 0,1% og óbundnum sparnaðarreikningum um 2%. Bundnir reikningar gefa hærra, en óbundnir nefndir hér þar sem sjóðir eru eingöngu bundnir í 1-2 daga.

Gott samval virkar

En hvenær er best að eiga innlán, skuldabréf og hlutabréf? Og hvaða skuldabréf og hlutabréf? Það er mikil áskorun en ein leið til áhættudreifingar er að eiga í blönduðum sjóði. Slíkir sjóðir hafa á undanförnum árum vaxið hratt og mætt auknum áhuga hjá almenningi. Stefnir hf. býður uppá trausta og góða sjóði sem hafa í áraraðir sannað gildi sitt. Einn sá elsti, sem heitir einfaldlega Stefnir-SAMVAL, verður 24 ára í ár. Hlutdeildarskírteinishafar Stefnis-SAMVALS, um 4.000 talsins (900 þeirra í áskrift) geta vel við unað með sparnað sinn í sjóðnum. Undanfarin fimm ár hefur sjóðurinn skilað 9,2% nafnávöxtun á ári og síðustu tíu ár 11,5% nafnávöxtun á ári. Á síðasta ári var ávöxtun Stefnis-SAMVALS 14,1%. Þetta sýnir að góð blanda getur virkað afar vel – líka á vaxtaverki !

Höfundur er forstöðumaður blandaðra sjóða hjá Stefni hf.