Ég laumast til að lesa athugasemdir á fréttasíðum oftar en ég kæri mig um. Af og til koma þar fram áhugaverðir punktar, en að stærstum hluta eru skrifin þar líkari sálrænum skyndibita: góð rétt á meðan en vond fyrir líðanina strax í kjölfarið.

Það sem kemur mest á óvart er óbilandi sjálfstraust og vissa sem virkir í athugasemdum búa yfir í ótrúlegustu málum. Sami einstaklingur telur sig hafa hina fullkomnu lausn hvort sem um ræðir faraldursfræði, innflytjendamál, loftslagsbreytingar eða efnahagsmál.

Sálfræðin hefur kortlagt þetta fyrirbrigði og það kallast Dunning - Kruger áhrifin. Þau lýsa sér þannig að þeir sem vita lítið á ákveðnu sviði ofmeta verulega þekkingu sína, á meðan þeir sem vita meira efast oft um hvað rétt er. Það fólk þarf að kynna sér málin í mörg ár eða jafnvel áratugi til að fá sama sjálfstraust og sá sem nær ekkert veit.

Þessi blanda af lítilli þekkingu og miklu sjálfstrausti er kölluð Heimskufell (e. Mount Stupid ). Og þetta fjall birtist ekki eingöngu í athugasemdakerfum heldur einnig á vinnustöðum og í samræðum.

Nýir starfsmenn á vinnustöðum vanmeta til dæmis oft reynslu þeirra sem fyrir eru og ofmeta eigin getu. Og þeir sem reka fyrirtæki hafa flestir fengið heilræði og tillögur frá vinum eða fjölskyldumeðlimum sem hafa litla eða enga reynslu úr viðkomandi atvinnugrein.

Það er freistandi að halda að þessi áhrif nái einungis til annarra en okkar sjálfra, en enginn er ónæmur fyrir þeim. Með því að sýna auðmýkt og sækjast eftir aðstoð frá reynslumeira fólki getum við dregið úr þeim. Og ef við höfum sterka skoðun á tilteknu máli án þess að hafa kynnt okkur það til hlítar ættum við að staldra við áður en lengra er haldið.