Það er eins víst og að sólin kemur upp í austri, að það kemur kreppa eftir þessa kreppu. Við vorum rétt búin að ná okkur af hruni bankakerfisins þegar kórónuveiran hóf sína atlögu að heilsu fólks og efnahagslífinu í kjölfarið.

Við vitum ekki hvers eðlis næsta áfall kann að verða sem yfir okkur dynur né hve langt líður áður en það verður. Sigríður Hagalín Björnsdóttir lýsir trúverðuglega í nýrri bók sinni Eldarnir umfangsmiklum eldsumbrotum á Reykjanesskaganum. En eldgos annars staðar á landinu geta einnig valdið gríðarlegu tjóni. Kannski brýst út nýr áður óþekktur veirufaraldur, nú eða einhvers konar alþjóðleg efnahagskreppa vegna atburða fjarri okkar kalda landi.

Hvað getum við gert til að undirbúa okkur sem best?

Svarið blasir svo sem við. Geta samfélagsins til að bregðast við áföllum ræðst af öflugri verðmætasköpun, styrkum innviðum, hóflegri skuldsetningu ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila. Allt skilyrði sem voru uppfyllt þegar kórónuveiran hóf sína vegferð hér á landi.

En við höfum lært af kreppunni. Við höfum þurft að draga saman seglin. Tileinka okkur ný vinnubrögð. Venja okkur við að hugsa öðru vísi um hlutina – já og frá grunni. Ný þekking hefur orðið til. Allt atriði sem nýtast við að snúa hjólunum af stað að nýju.

Stafræn verslun, netfundir og ráðstefnur. Heimsendingar. Heimavinna. Stafræn þjónusta. Hagræðing, ný störf, önnur nálgun að markaði, fjar þetta og fjar hitt. Breytingarnar spanna öll svið – einkarekstur, sveitarfélög, ríkið. Alls staðar eru óendanleg tækifæri til að gera hluti öðruvísi og betur. Einfaldari nálgun. Viðskiptavinirnir geta orðið glaðari, líka þeir sem sækja þjónustu ríkisstofnana og sveitarfélaga.

Við skulum ekki hverfa aftur í gamla farið. Lykillinn felst í nýsköpun, þróun og framförum. Þeir sem ekki fylgja með staðna, dragast aftur úr og hverfa í baksýnisspeglinum.

Nýtum styrkleikana og fjölbreytnina. Áræðni, dugur, framtakssemi, frumkvæði og hugmyndaauðgi fólks eru engin takmörk sett. Á þessu þurfum við að halda til að koma tugum þúsunda til starfa að nýju eftir atvinnumissi. Bæði þeim sem sinnt hafa störfum sem hverfa og hinum sem geta snúið til baka til fyrri starfa af fullum þrótti.

Það besta sem stjórnvöld hafa gert í kreppunni nú er að styðja við nýsköpun. Kría, Matvælasjóður, aukið fé til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknasjóðs, Loftslagssjóðs og Markáætlana ber merki um að hugsað sé til framtíðar. Viðurkenning þess að sókn sé besta vörnin. Úr rannsóknum fyrirtækja, samstarfi þeirra og háskóla og stofnana spretta nýjar hugmyndir, ný störf, ný og áður óþekkt starfsemi. Tímabundinn ætti stuðningurinn ekki að vera.

Við byggjum samt á styrkum grunni þess sem fyrir er. Sjávarútvegi þar sem verðmætin aukast stöðugt án þess að fiskunum fjölgi í sjónum. Iðnaði sem sækir stöðugt fram á alþjóðlegum mörkuðum og er opinn fyrir nýjum straumum en byggir líka á frábærum innlendum aðföngum. Ferðaþjónustu sem mun ná vopnum sínum að nýju. Það hefur ekki dregið úr aðdráttarafli landsins með öllum sínum tækifærum til einstakrar upplifunar. Verslun og þjónusta upplifir alveg breytta tíma tíma þar sem viðskipti verða stöðugt stafrænni og nýir möguleikar skapast. Fjármálageirinn er afar sterkur og styður við breytingar sem nauðsynlegar eru.

Á sama tíma verðum við að bregðast við auknum áskorunum í umhverfismálum. Við verðum öll að tileinka okkur hugsun hringrásarhagkerfis þar sem strax er hugað að áhrifum vöru og þjónustu frá vöggu til grafar. Við þurfum að staldra aðeins við áður en við hendum hlutum. Eins að íhuga umhverfisáhrifin við innkaup.

Við búum vel að endurnýjanlegum orkulindum. Þær tryggja að loftslagsáhrif af umsvifum í okkar samfélagi eru minni en víðast hvar. Ný tækifæri munu skapast til aukinnar nýtingar orkulindanna. Og ekki skulum við neita okkur um þau tækifæri vegna óhóflegrar skriffinnsku þótt fullrar aðgætni sé þörf gagnvart umhverfinu. Samstaða ríkir um að Ísland nái kolefnishlutleysi á næstu 20 árum. Það er ekki langur tími. Viðfangsefnið er samt fyllilega viðráðanlegt. Það felur þó í sér umfangsmiklar breytingar en um leið mikil tækifæri.

Stöðugt fjölgar þeim sem búa hér og starfa en eiga sé annað fæðingarland eða foreldra sem flust hafa að. Fjölbreytni mannlífs og menningar eykst jafnt og þétt. Styrkur lands og þjóðar verður meiri þar sem allir fá tækifæri til að láta til sín taka, hvort sem er í atvinnulífi, stjórnmálum eða menningu.

Kannski þurfum við mestar áhyggjur að hafa af áhrifum veirunnar á skólastarfið. Á unga fólkið okkar og börnin. Viðbragða er þörf. Tilefnið er ærið. Þarna er framtíðin. Okkar er að efla þau og styrkja til leiks og starfa.

Ástandinu mun vonandi ljúka að mestu á næsta ári. Vísindin hafa sýnt styrk sinn. Margt má af faraldrinum læra. Það hefur verið sett saman skýrsla af minna tilefni. Hvað gerðum við vel? Hvað gátum við gert betur? Hvernig gerum við þetta næst?

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .