Þær fréttir komu flatt upp á landsmenn í október í fyrra að Ísland væri komið á hinn svokallaða „gráa lista" FATF (Financial Action Task Force - alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka) yfir þau lönd, þar sem talið væri að vörnum gegn peningaþvætti væri ábótavant.

Nú mátti svo sem gera athugasemdir við sanngirnina í því, ekki komu fram neinar vísbendingar um neitt misjafnt, og flest af því sem út af stóð fremur formkröfur en annað. Eins og ótal skattframteljendur kynntust á dögunum þegar þeim var gert að gera grein fyrir „raunverulegum eigendum" alls kyns áhugamannafélaga og jafnvel húsfélaga.

Það breytti ekki hinu að þetta var neyðarleg uppákoma og ekki til þess fallin að auka hróður landsins, sem var ástæðan fyrir því að stjórnvöld brugðust hratt og hart við, en þó ekki fyrr en í óefni var komið. Um þetta var svo mikið fjallað, en ýmsir spekingar og pólitískir lukkuriddarar töldu þetta borðleggjandi sönnun fyrri kenninga um að hér væri allt löðrandi í fjármálaspillingu eða verra.

* * *

Fjölmiðlar drógu ekki af sér í umfjölluninni, en samkvæmt Fjölmiðlavakt Creditinfo voru alls 363 fréttir og fréttaskýringar sagðar af málinu í íslenskum miðlum frá september til febrúar (milli fátíðra funda FATF). Mismikið auðvitað, Morgunblaðið sagði 60 fréttir af því, Kjarninn 52, Ríkisútvarpið 49, Vísir 45, og svo framvegis, mismikið niðri fyrir eftir stíl og stefnu.

Leið nú svo og beið, þar til á þriðjudag í liðinni viku að greint var frá því á allsherjarfundi FATF að Ísland hefði að mati sérfræðinga hópsins uppfyllt skilyrði hans um aðgerðir og kæmist því af „gráa listanum" í október, þegar næsti fundur verður haldinn. Því hafa vafalaust margir fagnað.

En samt er það svo skrýtið, sérstaklega í ljósi alls fréttaflóðsins síðastliðið haust, hvað lítið um þetta var fjallað. Helstu miðlar létu sér nægja endursögn á fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins um þetta, en aðeins Kristín Sigurðardóttir á RÚV jók einhverju við fréttina og tók viðtal við ráðherra. Kjarninn, sem hafði leitt málið á sínum tíma, hefur ekki enn sagt frá þessum lyktum, viku síðar.

Það má ætlast til þess að fjölmiðlar fylgi fréttamálum eftir og jafnframt að þeir segi frá því þegar þau fá einhverja lúkningu, eins og þarna gerðist. Og nei, endurbirtingar á fréttatilkynningum stjórnvalda er ekki fréttaflutningur.

* * *

Aðeins meira um Kjarnann, en hann hefur undanfarin ár margoft fjallað með gagnrýnum hætti um Bakkabræðurna Ágúst og Lýð Guðmundssyni í fréttaskýringum, án þess að þeir hafi brugðist við. Þar til nú fyrir réttum mánuði, að þeir sendu Kjarnanum margvíslegar athugasemdir og leiðréttingar í sex liðum, sem þeir óskuðu eftir að Kjarninn myndi birta.

Það gerði Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, en bætti jafnframt við eigin athugasemdum í jafnmörgum liðum, þar sem hann gerði lítið úr sumum leiðréttingum bræðranna, en féllst á annað. Sem bræðurnir gerðu svo frekari athugasemdir við, en þeim var skeytt þar fyrir aftan, svo úr varð ógnarlöng vefsíða (27 skjáfyllir á síma), textinn vel ríflega þrisvar sinnum lengri en þessi fjölmiðlarýni. Allt auðvitað í belg og biðu, almennum lesanda illskiljanlegt, ef hann þá fann þær og megnaði að lesa svo langt.

Fjölmiðlarýnir tekur enga efnislega afstöðu til athugasemdanna, sem þarna gengu á víxl, lesendur geta freistað þess að gera það sjálfir. En þessi framsetning var ekki í þágu lesenda, ekki til þess fallin að gefa athugasemdum við umfjöllun miðilsins tilhlýðilegt rými og raunar ekki heldur til þess að kynna mótbárur ritstjórans með viðhlítandi hætti.

* * *

Það er vitaskuld ekki óalgengt að umfjöllunarefni fjölmiðla séu ósátt við umfjöllunina, bæði með réttu og röngu og stundum kannski ekki síður af viðkvæmni. Fjölmiðlar eiga ekki aðeins að una því að þau geri athugasemdir við, yfirleitt er ástæða til þess að fagna þeim. Þær geta kallað á „aths. ritstj." sem þá er skotið fyrir neðan, en sú athugasemd verður að vera stutt, ekki meira en ein málsgrein.

Kalli gagnrýnin á ýtarlegri umfjöllun, svör eða skýringar ritstjórnar, þá er rétt að gera það frekar í sérstakri svargrein, en hefðin er sú að menn bíði með hana þar til daginn eftir. Það er aðallega gert fyrir kurteisissakir, þannig að fólk fái sviðið fyrir athugasemdir sínar, rétt eins og upphaflega greinin var birt án þess að umfjöllunarefnunum væri send hún til yfirlestrar og andmæla. Af því að þetta eru greinar, jafnvel ritdeila. Og þá fyrst eiga ritstjórarnir nú að kætast, því slíkt kunna lesendur jafnan vel að meta.

* * *

Ritdeilur eru raunar orðnar furðufátíðar í íslenskum fjölmiðlum, en þær voru algengar fyrir eins og öld og nánast út hana alla. Er samt engu friðsamlegra í þjóðmálaumræðunni nú en þá.

Þar gátu tekist á miklir andans jöfrar um aðskiljanlegustu efni og sjálfsagt náði það hæstum hæðum þegar slíkir meistarar efndu til ritdeilna við sjálfa sig, en þá a.m.k. annað nafnið dulnefni. Rýni rekur minni til þess að hafa lesið slíkar sjálfsritdeilur eftir bæði Helga Hálfdanarson og Þorstein Gylfason og gott ef Guðbergur Bergsson gerði það ekki líka einhverntímann. Fáir ef nokkrir aðrir slíkum snillingum enda samboðnir til þess að þræta við á síðum blaðanna.

* * *

Aftur að leiðréttingunum. Hið sérstaka hlutverk fjölmiðla snýst um að upplýsa almenning eftir bestu getu og vitneskju. Komi meira eða annað í ljós en áður var sagt, þá verða þeir að segja frá því undanbragðalaust og ekki skirrast við að kalla það leiðréttingar.

Það er ekki nóg að segja bara nýja og réttari frétt. Það þarf að leiðrétta. Einmitt til þess að öllum sé ljóst að eitthvað hafi áður verið missagt eða vansagt, en þó ekki síður til þess að lesandinn verði þess áskynja að miðillinn sé ófeiminn við að játa mistök, af því að hið rétta og upplýsing almennings gangi fyrir öllu öðru.

Þess vegna setja góðir ritstjórar leiðréttingarnar, sama hversu smávægilegar þær eru, ávallt á áberandi stað. Bæði til þess að hið rétta komi skýrt fram, en líka vegna þess að fátt er árangursríkara til þess að byggja upp trúverðugleika meðal almennings.