Á fyrri helmingi þessa ár var útflutningur um þriðjungi minni en á sama tíma í fyrra. Hagvöxtur var neikvæður sem nam 6%. Verðbólga hefur aukist úr 2% um áramótin í rúmlega 3% í ágúst. Áður en faraldurinn brast út var eiginfjárstaða atvinnufyrirtækja jákvæð um 3.300 milljarðar króna. Atvinnuleysi hefur aukist úr 3% frá áramótum í 5% í ágúst. 32 milljarða króna halli var á rekstri hins opinbera í mars. Skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum voru 150% í lok árs 2018. Á næsta ári má reikna með 5% hagvexti.

Á þessum róstusömu tímum sannast mikilvægi Hagstofu Íslands sem útgefanda og óháðs greinanda hagtalna. Hefur tíðni birtinga Hagstofunnar frá því að faraldurinn hófst verið aukin á tölfræði sem sérstaklega varðar núverandi ástand. Velta mætti upp því hagræna virði fyrir aðila atvinnulífsins að geta gengið að áreiðanlegum og tímanlegum gögnum um gang hagkerfisins sem nýtast við ákvörðunartöku hvers tíma.

Frá árinu 1914 hefur Hagstofa Íslands haldið til haga tölfræðilegum upplýsingum sem sjálfstæð stofnun. Samantekt hagsögufræðingsins Dr. Magnúsar S. Magnússonar á 100 ára afmæli stofnunarinnar lýsir þeim verkefnum sem henni hafa fylgt. Má þar nefna hagskýrslugerð um mannfjöldaþróun, verðlag, utanríkisverslun, atvinnuvegi og þjóðhagsreikninga. Fjöldi starfsmanna Hagstofunnar var 118 í lok árs 2019. Til samanburðar var fjöldi starfsmanna annarra hagstofa á Norðurlöndunum á bilinu 550 til 1.300 en rúmlega 3.300 ef horft er til Englands. Þrátt fyrir að hlutfall starfsmanna á Íslandi sé hæst miðað við höfðatölu þarf að taka tillit til að sömu alþjóðlegu kröfur eru gerðar til Hagstofu Íslands og til annarra hagstofa.

Á heimasíðu sinni birtir Hagstofan 3.854 veftöflur yfir tölfræði og því til viðbótar stendur hún fyrir hönd Íslands í skilum á viðamiklum gagnasendingum sem yfirfarnar eru af alþjóðlegum stofnunum. Má þar nefna Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD). Hagstofan fylgir alþjóðlegum stöðlum við öflun gagna, útreikning og birtingu upplýsinga sem tryggir samanburðarhæfi við önnur ríki og stuðlar að trausti meðal erlendra aðila.

Hagstofa Íslands
Hagstofa Íslands

Traust er Hagstofunni mikils virði en samkvæmt lögum nr. 163/2007 ríkir þagnarskylda um allar þær upplýsingar sem Hagstofan safnar og skulu þær einvörðungu notaðar til ópersónugreinanlegrar hagskýrslugerðar. Samkvæmt viðhorfskönnun sem Gallup framkvæmdi í febrúar 2019 var Hagstofan fimmta traustasta stofnun landsins að mati svarenda þar sem 65% þeirra báru mikið traust til hennar. Hefur hlutfallið farið vaxandi frá árinu 2008 þegar það mældist tæplega 50%.

Hagstofan safnar upplýsingum frá mismunandi heimildum í þeim tilgangi að birta þær í heildstæðri mynd. Með því móti skapar hún verðmæti þar sem tími sparast við að hver og einn notandi hagtalna safni að sér upplýsingum úr mismunandi átt. Þá gegna starfsmenn Hagstofunnar því hlutverki að yfirfara og staðreyna upplýsingar sem þeir afla áður en þær eru birtar. Notendur gagna Hagstofunnar njóta þeirrar vinnu. Eitt dæmi er birting fjármálareikninga Hagstofunnar þar sem fram koma stöður og færslur fjármálalegra eigna og skulda helstu geira hagkerfisins. Áður en reikningarnir eru birtir hafa sérfræðingar stofnunarinnar yfirfarið og greint gögn frá mismunandi heimildum og stemmt þau af. Fyrir vikið sparast sá tími og fyrirhöfn sem hver og einn notandi hefði varið til sömu vinnu.

Um mikilvægi gagna Hagstofunnar verður vart deilt. Illmögulegt getur reynst að áætla eftirspurn án mannfjöldatölfræði og mannfjöldaspár. Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar mælir fjölda þeirra á vinnufærum aldri sem tilheyra vinnuafli, meðalvinnutíma og fjölda atvinnulausra. Launarannsókn stofnunarinnar mælir launatekjur starfandi aðila og lífskjararannsókn hennar sýnir félagslega og fjárhagslega stöðu heimila. Atvinnutölfræði inniheldur efnahagsstöðu fyrirtækja ásamt afkomu eftir atvinnugeira sem lýsir framboðshlið hagkerfisins og undirlagi fjármunamyndunar. Umhverfistölfræði mælir náttúruleg gæði eins og losun gróðurhúsalofts frá hagkerfinu. Utanríkisverslunartölfræði gefur skýra mynd af bæði vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd eftir tollflokkum. Tölfræði opinberra fjármála inniheldur upplýsingar um afrakstur og stöðu sameiginlegrar neyslu innlendra aðila eftir útgjaldaliðum. Þjóðhagsreikningar mæla verðmætasköpun hagkerfisins miðað við ráðstöfun og framleiðslu niður á undirliði og atvinnugreinar. Verðlagstölfræði inniheldur þróun einingaverðs á mismunandi vörum og þjónustu. Þjóðhagsspá Hagstofunnar veitir vísbendingar um vegferð hagkerfisins þar sem notast er við öll fyrrgreind gögn.

Svo að vitnað sé í hagfræðinginn Indriða Einarsson í formála við Manntal á Íslandi 1910 frá 31. desember 1913 tryggir Hagstofa Íslands möguleika á að „þreifa á lífæð þjóðarinnar“.

Höfundur gegndi stöðu hagfræðings hjá Hagstofu Íslands í átta ár.