Fastanefnd EFTA og sameiginlega EES-nefndin hittust í Brussel þann 11. og 13. júní. Í framhaldinu samþykkti sameiginlega EES-nefndin 46 ákvarðanir sem innihalda 70 lögfræðilegar gerðir sem verða hluti af EES-samningnum, sbr. 102. gr. samningsins. Greiðsluþjónustutilskipun ESB nr. 2015/2366 ( PSD2 ), sem byggist á fyrstu greiðsluþjónustutilskipun ESB nr. 2007/64 var meðal þessara gerða.

PSD2 miðar að því að skapa og auðvelda regluverkið fyrir greiðsluþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu. Ennfremur miðar tilskipunin að því að auðvelda þróun innri markaðar fyrir öruggar rafrænar greiðslur og tryggja að neytendur, kaupmenn og fyrirtæki njóti gagnsæis og valfrelsis á hinum innri markaði.

Í kjölfar þess að lögfræðileg gerð hefur verið tekin upp í EESsamninginn ber að innleiða hana í landsrétt, sbr. 7. gr. EES-samningsins. EES-gerðir verða teknar upp í íslenskan rétt eða innleiddar á tvo vegu . Annars vegar með settum lögum og hins vegar með stjórnvaldsfyrirmælum.

Þá er yfirleitt stuðst við umritunaraðferð eða tilvísunaraðferð við innleiðingu. Með umritun eru ákvæði gerðar tekin efnislega upp í sett lög eða stjórnvaldsfyrirmæli eða setningu nýrra laga eða stjórnvaldsfyrirmæla. Þar sem PSD2 er tilskipun má ætla að efnisákvæði hennar verði umrituð og nánar útfærð í íslenskum rétti.

Gera má ráð fyrir að breytingar verði á núgildandi lögum um greiðsluþjónustu nr. 120/2011 í kjölfar innleiðingar PSD2 . Tilskipunin mun gera neytendum og seljendum kleift að nota þjónustuveitur þriðju aðila til að stjórna fjármálum sínum. Þá mun hún opna dyr fyrir aðra aðila en fjármálafyrirtæki til að veita greiðsluþjónustu og því líklegt að hún muni hafa mikil áhrif á viðskiptabankastarfsemi. Er hér átt við svokallaða „þriðju aðila“ ( TPPs ), sem skiptast annars vegar í greiðsluþjónustuvirkjendur ( PISP ) og upplýsingaþjónustuveitendur ( AISP ). PSD2 opnar fyrir aðgengi þessara þriðju aðila að greiðslureikningum viðskiptabanka án þess að nokkurt viðskiptasamband sé á milli þeirra og viðskiptabankanna sjálfra. Þarf því enginn samningur að vera til staðar á milli viðskiptabanka og greiðsluþjónustuveitenda þar sem samþykki eigenda reikningsins dugar. Er hér um að ræða frávik frá hinum hefðbundnu kortakerfum, þ.e. þegar greiðandi greiðir fyrir vöru með debet- og kreditkortum.

Dæmi um lausn sem kynni að falla undir regluverkið er Apple Pay . Með notkun lausnarinnar geta viðskiptavinir greitt með símanum sínum án þess að þurfa að nota greiðslukort og þar með koma í veg fyrir að gefa upp persónulegar upplýsingar í hvert sinn sem þeir framkvæma greiðslu.

Af framangreindu er ljóst að ýmis atriði koma til skoðunar í tengslum við innleiðingu PSD2 . Áður fyrr voru það einungis viðskiptabankar sem sáu um greiðsluþjónustu. Kann þetta því að leiða til aukinnar samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur. Ennfremur fylgja þessu í senn áskoranir og tækifæri, bæði fyrir markaðsaðila og stjórnvöld.

Höfundur er lögfræðingur.