Mikið atvinnuleysi er helsta efnahagslega birtingarmynd heimsfaraldursins. Til að fjölga störfum og bæta lífskjör fólks þarf að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Því þrátt fyrir að okkar daglega líf sé að færast í eðlilegra horf eru stórar áskoranir sem blasa við. Ein þeirra snýr að öldrun þjóðarinnar.

Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar, en óbreyttum eftirlaunaaldri, verða sífellt færri vinnandi hendur á íslenskum vinnumarkaði til þess að standa undir samneyslunni. Til að njóta áfram sömu eða betri lífskjara þarf hver vinnandi maður því að framleiða meira en áður. Önnur áskorun snýr að lágu fjárfestingastigi en fjárfesting er einn helsti aflvaki framleiðniaukningar. Sé litið til annarra iðnríkja er hlutur launa í verðmætasköpun hér á landi í hæsta lagi og hlutur fjármagns að sama skapi með minnsta móti. Það ætti því ekki að koma á óvart að fjárfesting er lítil í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Þá skýtur það skökku við að í samanburði við önnur iðnríki eru íslenskar reglur samkeppnishamlandi, hindranir fyrir erlenda fjárfestingu hvergi víðtækari og flækjustig við að stofna fyrirtæki mun meira en annars staðar. Hið lága fjárfestingastig er því fyrst og fremst heimatilbúinn vandi sem kemur niður á okkur sjálfum.

Við þetta má bæta að Ísland er hálaunaríki í alþjóðlegum samanburði. Sú staða er ekki eftirsóknarverð nema verðmætasköpunin sé þeim mun meiri. Það er ekki að ástæðulausu að á síðustu tveimur áratugum hefur verðbólga hér verið fjórfalt meiri en á Norðurlöndum og vaxtastig fimmfalt hærra - því á sama tíma hafa launahækkanir verið allt að þrefalt meiri. Öflugt atvinnulíf eykur hagsæld og forsenda velmegunar er aukin fjárfesting. Hlúa þarf að rekstrarumhverfi fyrirtækja með einföldu og skynsamlegu regluverki, hóflegri skattheimtu og launastefnu sem stuðlar að stöðugleika og lágu vaxtastigi. Að öðrum kosti verður ekki nóg til

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins