Ferðaþjónustan hefur gert Austurland skemmtilegra. Það eru fleiri veitingastaðir, fjölbreyttari afþreying og meiri atvinna á svæðinu. Það er enginn vafi á því að aukinn fjöldi ferðamanna hefur gert 10.500 manna fjórðungi fært að auka lífsgæði þeirra sem hér búa og gert svæðið í heild ákjósanlegra til búsetu.

Þessar breytingar hafa átt sér stað þrátt fyrir að aðeins fjórðungur þeirra ferðamanna sem sækja landið heim, heimsækir Austurland en samkvæmt könnun Ferðamálastofu frá 2018 sögðust 23% ferðamanna hafa komið til Austurlands. Það er því augljóst að ferðaþjónustan á Austurlandi á mikið inni, hér eru tækifæri og mikið rými til vaxtar.

Vandamál og tækifæri hér eru önnur en þau sem eru á suðvesturhorninu og því mikilvægt að stjórnvöld og greinin sem heild leggi eyru við. Ef vel tekst til og okkur ber gæfa til að stuðla að bættri dreifingu ferðamanna um allt land, allt árið, er falin í því mikil verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið, öflugri ferðaþjónustu og sterkari byggð allt í kringum landið.

Ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi hafa verið duglegir að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um hvernig væri hægt að styrkja greinina á Austurlandi og hafa ítrekað bent á leiðir til þess. Nokkur atriði sem bent hefur verið á:

Ein gátt

Keflavíkurflugvöllur er aðalgáttin inn í landið og þangað koma um 97% allra ferðamanna til landsins. Við eigum alþjóðaflugvöll hinumegin á landinu og í gegnum hann koma til landsins 0% erlendra ferðamanna.

Stjórnvöld tala um að markmiðið sé að dreifa ferðamönnum en á sama tíma er flugvallaeldsneyti  30% dýrara á Egilsstaðaflugvelli en í Keflavík.

Nú þekki ég ekki mikið til flugrekstrar en man eftir að hafa heyrt að 1% hækkun flugvélaeldsneytis á heimsmarkaði gerði rekstur WOW verri sem nemur 180 milljónum króna á ári.

Með því að laga þetta væri klárlega verið að auka líkur á að flugfélög myndu horfa til Egilsstaðaflugvallar og ég spyr: á hvers ábyrgð er að laga þetta?

Á meðan þetta er svona eru bílaleigubílar „flugvélar" landsbyggðarinnar, en um 60-70% ferðamanna koma keyrandi á eigin vegum austur. Því er mikilvægt að stjórnvöld hafi það í huga við ákvarðanir varðandi regluverkið í kringum þann rekstur, en dýrari bílaleigubíll þýðir einfaldlega stytti ferðir.

Flugvallarúta - bein leið

Ef ferðamaður ætlar að panta sér ferð austur með flugi þá þarf hann fyrst að panta flug til Keflavíkur, sem oft er kynnt sem flugvöllur í Reykjavík,  það ruglar fólk mikið í rýminu að vera að fljúga til Reykjavíkur en þurfa svo að taka rútu tugi kílómetra á hinn flugvöllinn í borginni til að geta flogið austur.

Það er ekki flugvallarúta milli Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvallar heldur kemstu aðeins á BSÍ og þaðan þarft þú að koma þér út á flugvöll.

Með því að laga þetta sambandsleysi milli flugvalla væri auðveldara að selja ferðir beint til Austurlands.

Markaðssetning

Opinber markaðssetning á köldu svæðum ferðaþjónustunnar hefur verið í skötulíki en það hefur ítrekað verið kallað eftir átaki í markaðssetningu á þessum svæðum. „Það er ekki hægt að senda fólk út á land" segja sumir, en ferðamenn fara heldur ekki þangað sem þeir komast ekki og alls ekki þangað sem þeir vita ekki neitt um.

Stuðlagil í Jökuldal var notað í kynningarefni hjá WOW fyrir um þrem árum, áður en það var gert vissu fáir utan Austurlands um þennan stað, núna koma um 200 manns á dag til að skoða gilið.

Þetta sýnir okkur að auglýsingar virka og ef stjórnvöld og greinin taka sig saman og kynna áhugaverða staði á fáfarnari svæðum þá eykur það fjölda ferðamanna sem heimsækja þau.

Aðgengi

Á síðasta ári var veitt aukafjármagn í vetrarþjónustu vega. Eini fjórðungurinn sem fékk ekki aukafjármagn var Austurland á þeim forsendum að þörfin væri ekki eins mikil hér og annars staðar. Þetta var áhugaverð ákvörðun svo ekki sé meira sagt, sé haft í huga að ítrekað hafa aðilar á Austurlandi kallað eftir betri vetrarþjónustu. Meðal annars til að ferðamenn geti treyst því að þeir komist til og frá fjórðungnum og geti heimsótt þá ferðamannastaði sem hér eru.

Að lokum

Ég get nefnt fleiri dæmi um hvernig væri hægt að stuðla að betri dreifingu  ferðamanna eins og bætt rekstrarumhverfi fyrirtækja, mikilvægi fjárfestinga og bætt aðgengi að fjármagni úti á landi en ég læt þetta duga í bili. Stærsti áhrifavaldurinn, íslenska ríkið, ber mikla ábyrgð á því að skapa þær aðstæður sem þarf til, svo ferðaþjónustan geti blómstrað og orðið heilsársatvinnugrein allt í kringum landið.

Í dag getur ríkið ekki með góðu móti sagst vera að gera allt sem það getur til að búa þær aðstæður til. Vonandi verður breyting á því sem fyrst, öllum til góða.

Höfundur er ferðaþjónustuaðili á Austurlandi og stjórnarmaður í SAF.