Í nútímalegri viðskiptaþróun er hið stafræna upphaf og endir allra verkefna. Sú áherslubreyting endurspeglast í því að ábyrgð á upplýsingatækni og stafrænni sókn færist ofar og víðar í skipuritum fyrirtækja og fjárfestingar eru að aukast mikið ár frá ári.

Hlutverk stjórna er að iðka stefnumótandi hlutverk sitt og spyrja krefjandi spurninga um framtíð fyrirtækja sinna. Til að árangur náist er mikilvægt að fyrirtæki geti breyst hratt og stjórnendur hafi sterkt umboð og skilning til þeirra breytinga.

Það verður æ mikilvægara að fyrirtæki hafi innsýn og þekkingu á stafrænni þróun við stjórnarborðið svo tryggt sé að góðar ákvarðanir séu teknar enda geta fjárfestingar stórra fyrirtækja í tækni auðveldlega hlaupið á hundruðum milljóna eða milljörðum þegar ráðist er í stærstu verkefnin. Fyrsta skrefið er að setja sig inn í málin og byrja á því að spyrja:

Hversu stafræn er núverandi stefna fyrirtækisins? Hvaða breytingar á henni gætu stjórnendur gert til að gera enn meiri árangur mögulegan?

Til að hægt sé að selja, fullnusta og þjónusta vörur með stafrænum hætti þarf stundum að gera eðlisbreytingar á þeirri þjónustu sem er í boði.

Hvar í skipuritinu liggur ábyrgð á stafrænni sókn?

Upplýsingatæknirekstur og stafræn þróun lúta ekki endilega sömu lögmálum. Í rekstrinum er verið að lágmarka kostnað og tryggja öryggi og uppitíma en í þróun er verið að hámarka virði og ánægju viðskiptavinar ásamt mögulega hagræða í rekstri í framtíðinni. Þetta krefst ólíkrar hugsunar og stjórnenda sem skilja báðar hliðar málsins. Er tryggt að lykilstjórnendur búi yfir þeirri reynslu og þekkingu á tækni sem til þarf?

Á hvaða stað viljum við vera eftir 10 eða 15 ár og hvaða áherslubreytingar þurfum við að gera núna til að taka stefnuna þangað? Eru nægjanlegir fjármunir og fókus settir í verkefnin núna? Hversu hratt er okkur að takast að gera viðskipti fyrirtækisins stafræn og sjálfvirk?

Ef við ætlum að gera raunverulegar breytingar er mikilvægt að taka ekki pappírsferlana og setja þá á netið heldur þarf að endurhanna þá með sjálfvirkni og þarfir viðskiptavinarins í huga.

Hversu vel styðja tæknilegir innviðir að fyrirtækið geti stundað hraða vöruþróun með tækni?

Öll fyrirtæki búa við misgóða tæknilega arfleifð og fyrirtæki geta setið í súpunni eftir dýrkeyptar ákvarðanir. Stundum er talað um tækniskuld í þessu sambandi en sú skuld lýtur að mörgu leyti sömu lögmálum og aðrar skuldir — hún getur sannarlega lamað fyrirtæki líkt og þær fjárhagslegu. Er fyrirtækið og stjórnin meðvituð um tæknilegu skuldina og er til alvöru plan um hvernig greitt verði úr henni?

Er kúltúrinn í fyrirtækinu tilbúinn í þær breytingar sem framundan eru?

Stafræn umbreyting felur í sér að við þurfum að kenna viðskiptavinum okkar að kaupa og nota þjónustu okkar algjörlega stafrænt. Slíkur árangur næst ekki nema með samstarfi ólíkra sviða fyrirtækisins. Hefur fyrirtækinu tekist að brjóta niður veggi og tryggja þverfaglega samvinnu?

Erum við sjálfum okkur verst?

Af fenginni reynslu eru það oft innri reglur og hefðir sem koma í veg fyrir að ný tækni er notuð. Að nýta tækni á borð við skýjalausnir og snjalltæki, svo dæmi séu tekin, getur skipt sköpum í að samkeppnisforskot náist á markaði. Það er hlutverk stjórna að beita sér fyrir því að liðkað sé fyrir regluverki til að styðja við nýsköpun. Þegar viðfangsefnið er flókið og þekkingin á þeim ekki mikil er hætt við því að málinu sé slegið á frest. En eitt er víst, að við sláum ekki stafrænni framtíð á frest.

Höfundur er ráðgjafi fyrirtækja í stafrænni vegferð