Formenn ríkisstjórnarflokkanna sitja nú saman og kortleggja næstu fjögur ár og þau stóru verkefni sem framundan eru. Þau hafa nægan tíma í verkið á meðan deilt er um innsigli og kjörbréf og því vildum við sem störfum í velferðarþjónustunni minna á nokkur mikilvæg atriði sem þurfa að okkar mati að verða efst á verkefnalista ríkisstjórnar þeirrar sem nú er í myndun.

Verkefni nr. 1: uppbygging fjölbreyttra þjónustuúrræða til að mæta breyttum tímum

Í okkar geira er oft talað um að fyrsti maðurinn sem verður 150 ára sé þegar fæddur. Hérlendis þýðir það að á næstu 30 árum mun öldruðum fjölga úr 14,7% í 25% af þjóðinni og útgjöld til heilbrigðismála munu hækka um tæpa 90 milljarða. Þessi fjölgun aldraðra kallar á að horft verði í auknum mæli til fjölbreyttra lausna í þjónustu við aldraða, svo sem dagdvala, heimahjúkrunar, öryggis og þjónustuíbúða og fjarþjónustu með innleiðingu velferðartækni.

Góðu fréttirnar eru að flestar af þessum lausnum eru þegar til staðar hérlendis og það sem vantar er að skala þær hratt og vel upp. Fyrirtæki í velferðarþjónustu hringinn í kringum landið eru tilbúin í verkefnið og bíða þess bara að ný ríkisstjórn kalli þau að borðinu, móti metnaðarfulla stefnu í víðu samráði - og svo einhendum við okkur af stað. Við erum meira en tilbúin í þetta verkefni og bjóðum okkur og okkar mannauð fram til samstarfs.

Verkefni nr. 2: Að leysa rekstrarvanda hjúkrunarheimila, til að gera þeim mögulegt að veita heimilisfólki sínu hágæða þjónustu

Hjúkrunarheimili landsins hafa lengi glímt við fjárhagslegan rekstrarvanda og brugðu stjórnvöld því á það ráð fyrr á árinu að fá óháðan ytri aðila til að gera faglegt mat á rekstri heimilanna. Gylfi Magnússon, prófessor og fyrrverandi efnahags og viðskiptaráðherra var fenginn til að leiða vinnuna og var niðurstaða hennar afdráttarlaus. Mat á halla ársins 2019 var 2,7 milljarðar og 87% hjúkrunarheimila náðu ekki endum saman.

Á sama tíma og farið er í uppbyggingu fjölbreyttra þjónustuúrræða er mikilvægt að leysa þennan vanda og standa með hjúkrunarheimilunum og þeirra gæðastarfi. Íbúar þeirra, sem hafa gefið til samfélagsins áratugum saman, eiga það skilið.

Verkefni nr. 3: Að virkja kraftinn sem býr í þriðja geiranum til að stórefla velferð landsmanna

Rannsóknir sýna að þriðji geirinn: Sjálfseignastofnanir, félagasamtök og grasrótastarfsemi, skilar oft og tíðum betri þjónustu fyrir minni tilkostnað í samanburði við opinberan rekstur. Auk þess er þriðji geirinn ávallt frjór jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir og lausnir, nú sem fyrr. Hér á landi er það einmitt þannig að það er þriðji geirinn sem ber uppi stóran hluta velferðarþjónustunnar.

Auk hjúkrunarheimila og dagdvala er þar um að ræða sum af mikilvægustu fyrirtækjum, stofnunum og samtökum landsins. Má þar t.d nefna SÁÁ, MS Setrið, Reykjalund, Alzheimer samtökin, Sólheima og Sjálfsbjargarheimilið.

Við hvetjum nýja ríkisstjórn og Alþingi til að virkja kraftinn, hugsjónirnar og frumkvöðlaandann sem býr í þriðja geiranum.

Velferðarþjónustan skiptir alla máli

Það var sérlega ánægjulegt fyrir okkur í velferðarþjónustunni að fylgjast með nýliðinni kosningabaráttu og þeirri umræðu sem var í gangi um helstu áskoranir samfélagsins. Sama um hvaða stjórnmálaflokk var að ræða, þá voru allir sammála um að styðja þyrfti við velferðarþjónustuna og auka samstarf.

Það var vissulega áherslumunur og fólk vildi fara mismunandi leiðir, en markmiðið var það sama: Að styðja við þjónustu við viðkvæmustu hópa samfélagsins. Í því ljósi setjum við þennan „minnislista" fram, til hægðarauka fyrir stjórnmálamennina okkar. Ef við spólum fjögur ár fram í tímann og sjáum að þessum þáttum hefur verið sinnt, þá getur ríkisstjórnin sem þá er að skila af sér hakað við þessi verkefni á „to-do listanum“ sínum (eða jafnvel sett broskall við þau), með góðri samvisku.

Björn Bjarki Þorsteinsson, er formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), María Fjóla Harðardóttir er varaformaður SFV og Sigurjón Norberg Kjærnested er framkvæmdastjóri SFV.