mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

100 kílómetra löng drauganet

24. nóvember 2009 kl. 12:00

Stjórnvöld í Ástralíu og Nýja-Sjálandi áforma að banna notkun gríðarlangra rekneta sem lögð eru í Suður-Kyrrahafið og verða oft að stjórnlausum drauganetum. Nýlega fannst eitt slíkt net sem var yfir 100 kílómetra langt og fullt af tannfiski.

Netin eru ódýr og svo virðist sem útgerðir sumra báta sjái sér ekki hag í því að hirða þau upp. Svona net týnast líka stundum og þá halda þau áfram að veiða á för sinni um hafið.

Nýlega tilkynntu eftirlitsmenn á Nýja-Sjálandi um tvö spænsk skip sem lagð höfðu 100 kílómetra löng net í hafinu milli Ástralíu og Nýja-Sjálands í þeim tilgangi að veiða djúpsjávarhákarla og aðrar tegundir.

Í frétt á sjávarútvegsvefnum fis.com kemur fram að reknet af þessu tagi hafi verið bönnuð í Evrópu og annars staðar í Norður-Atlantshafi og nú er verið að undirbúa slíkt bann á alþjóðlegu hafsvæði í Suður-Kyrrahafi.