föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaaukning í nóvembermánuði

11. desember 2008 kl. 13:44

Heildaraflinn í nóvember var 118 þús. tonn. Það er rúmlega 11 þús. tonnum meiri afli en í nóvember 2007. Aukning var í afla botnfisks og síldar.

Botnfiskaflinn í nýliðnum nóvember var 43 þús. tonn samanborið við 37 þús. tonn í sama mánuði í fyrra. Aukinn botnfiskafli er vegna mikils karfaafla í nýliðnum nóvember.

Karfaaflinn nú varð rúmlega 7 þús. tonn en var aðeins 3.200 tonn í nóvember 2007. Einnig jókst þorskafli í nóvember um tæplega tvö þúsund tonn milli ára. Hinsvegar veiddist minna af ýsu.

Uppsjávarafli í nóvember 2008 var aðeins síld í ár eins og í nóvember í fyrra. Af sumargotsíld veiddust rétt um 60 þús. tonn á móti 64 þús. tonnum. Hinsvegar var afli í norsk-íslensku síldinni talsvert meiri en í fyrra eða tæp 15 þús. tonn á móti tæpum 5 þús. tonnum í nóvember á síðasta ári.

Heildarafli fiskveiðiársins 2008/2009 var í lok nóvember kominn í 280 þús. tonn sem er rúmlega 24 þúsund tonnum meiri en heildarafli fiskveiðiársins 2007/2008 var á sama tíma í fyrra. Heildarafli almanaksársins 2008 var í lok nóvember 1.198.213 tonn. Á sama tíma í fyrra var aflinn 1.320.453 tonn.

Meiri upplýsingar um aflann í nóvember og stöðu aflaheimilda eru á vef Fiskistofu, sjá HÉR.