mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Alaskaufsi skákar þorski á Evrópumarkaði

4. nóvember 2009 kl. 17:23

Alaskaufsi var sú botnfisktegund sem mest var flutt af inn til Evrópusambandsins á síðasta ári og tók hann þar með sæti þorsksins sem hingað til hefur verið mest keypta tegundin.

Skýringin er sögð sú að dregið hafi úr framboði á þorski vegna aðgerða gegn ólöglegum veiðum og þrýstings á þorskverð á mörkuðum. Þorskaflinn féll um 10% milli áranna 2007 og 2008 eða úr  945.000 tonnum í 849.000 tonn miðað við fisk upp úr sjó.

Á sama tíma jókst innflutningur á alaskaufsa um 3,5% milli ára eða úr 875.000 tonnum í 906.000 tonn.

Þorskurinn gæti þó endurheimt sinn fyrri sess á næsta ári því gert er ráð fyrir auknum þorskveiðum, einkum í Barentshafi, auk þess sem eftirspurn gæti aukist ef þorskverð helst áfram lágt.

Eldisfiskurinn pangasius frá Víetnam gæti þó þegar fram í sækir skákað bæði þorski og alaskafusa og orðið mest keypta fisktegundin í Evrópusambandinu. Á síðasta ári voru flutt þangað 688.000 tonn af frystum pangasíusflökum (umreiknað í heilan fisk) samanborið við 513.000 tonn árið áður.

Þetta kemur fram í skýrslu samtaka fiskframleiðenda og innflytjenda fisks innan Evrópusambandsins.