miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Arnarfjörður eina ljósglætan í rækjuveiðum á grunnslóð

5. nóvember 2009 kl. 11:41

Nýlokið er haustkönnun Hafrannsóknastofnunarinnar á rækjumiðunum á Vestfjörðum og á fjörðum og flóum norðanlands. Útbreiðsla rækju var svipuð og í fyrra í Arnarfirði en vísitala stofnstærðar var lægri en árið 2008. Leyfðar verða veiðar á 300 tonnum af rækju í Arnarfirði í vetur. Annars staðar eru rækjustofnarnir litlir og skilyrði óhagstæð vegna fiskgengdar. 

Rækjustofninn í Ísafjarðardjúpi mældist lítill og hefur minnkað mikið frá árinu 2007 þegar stofninn virtist vera á uppleið. Aukning var í þorski frá fyrri árum og var fjöldi hans yfir meðallagi. Fjöldi ýsu var einnig langt yfir meðallagi. Undanfarna sex vetur hefur verið mikið af fiski í Djúpinu og oftast lítið af rækju og hafa engar rækjuveiðar verið leyfðar.

Aðeins fannst rækjuvottur í Húnaflóa. Þar hafa engar rækjuveiðar verið stundaðar í 10 vetur.

Mjög lítið fannst af rækju í Skagafirði og er það svipað ástand og frá því haustið 2000 er rækjustofninn hrundi. 

Minna fékkst af rækju í Skjálfanda heldur en síðustu 3 árin. Þar hafa engar rækjuveiðar verið stundaðar síðustu 9 vetur.

Lítið fékkst af rækju nú í Öxarfirði. Engar rækjuveiðar hafa verið stundaðar þar síðustu 7 vetur.

Nánar segir frá niðurstöðum rækjurannsóknanna á vef Hafró, HÉR