föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Atvinnulíf sjávarplássa lagt í rúst á 7 árum

9. maí 2009 kl. 15:06

Bæjarstjóri Vestmannaeyja víkur að eignarupptöku og framsali nýtingaréttar til erlendra þjóða

Bæjarfélag sem staðið hefur af sér eldgos, sjórán og margskonar óáran í gegnum árhundruðin stendur nú enn á ný frami fyrir vá sem kann að valda ómældum búsifjum. Ógnir um eignarupptöku og hugsanlegt framsal nýtingaréttar til erlendra þjóða eru nú grár og helkaldur veruleiki.

Þetta sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í setningarræðu sinni á ráðstefnu sem hófst í bæjarfélaginu í gær undir yfirskriftinni; Þátttaka atvinnulífsins í rannsóknum og nýsköpun í sjávarútvegi.

Elliði sagði ráðstefnuna haldna í skugga gríðarlegra ógna.

„Í þau þúsund ár sem við Eyjamenn og fleiri höfum lifað á fiskveiðum og vinnslu hefur aldrei ríkt eins mikil óvissa um framtíð atvinnulífs okkar. Aldrei hefur deilan um nýtingu auðlindir sjávar og sjávarútveginn verið eins mikil og núna,“ sagði Elliði.

„Íbúar þessara svæða eru hreinlega óttaslegnir og í þetta skipti ekki vegna náttúrulögmála heldur vegna mannaverka.“

Elliði sagði í ræðu sinni að fyrning aflaheimilda upp á 5% myndi leiða til þess að sjávarútvegurinn í núverandi yrði gjaldþrota á 7 árum.

„Atvinnulíf Vestmannaeyja og annarra sambærilegra sjávarplássa [yrði] sem sagt lagt í rúst á 7 árum,“ sagði Elliði.

„Fólkið sem talar fyrir þessu gerir sér enga grein fyrir afleiðingunum. Áhrifin ná þó langt út fyrir sjávarplássin því þetta leiðir til þess að bankakerfið hrynur aftur og eftir situr fátæk þjóð sem jafnvel hefur tekist að fórna seinasta fjöregginu, sjávarútveginum.“

Ef ekkert veiðist tapa allir, ef vel veiðist græða allir

Þá vék Elliði að ráðstefnunni sjálfri og sagði mikilvægt fyrir sveitafélag eins og Vestmannaeyjabæ að vel tækist til á slíkum ráðstefnum því miklir hagsmunir væru í húfi.

„Hér í Eyjum er það stundum sagt að hlutirnir gerist fyrir neðan Strandveg og það má til sannsvegar færa. Ef ekkert veiðist þá tapa allir, ef vel veiðist græða hinsvegar allir. Það þarf því vart að koma á óvart hversu mikil hinn samfélagslegi vilji er hér í Eyjum til að efla allt fræðastarf sem tengist sjávarútvegnum,“ sagði Elliði.   Þá sagði Elliði jafnframt:

„Ég ætla ekki að draga fjöður yfir þá skoðun mína að ég tel ógnargjá vera milli atvinnulífsins og fræðastarfsins í sjávarútvegi. Vertíð eftir vertíð, ár eftir ár stöndum við frammi fyrir skaðlegri tortryggni þeirra sem standa sitthvorum megin þessarar ógnargjár. Sjómenn draga álit sérfræðinganna að sunnan verulega í efa og vafalaust er viðhorfið eitthvað því líkt hjá eftirlits og rannsóknargeiranum til okkar í sjávarbyggðum og lítið gefið fyrir kaffistofufiskifræðina sem ég stunda og jafnvel lítið gefið fyrir fiskifræði sjómanna.“

Elliði sagði að líklegt að sannleikurinn sé í raun blanda af þessu hvoru tveggja.

„Svo mikið er víst að aðrir geta ekki án hins verið og samstarf milli atvinnulífsins og rannsókna og fræðageirans er eftirsóknarverð fyrir alla,“ sagði Elliði.

„Ekki þarf að leita lengra en til síðustu loðnuvertíða til sjá hversu mikilvægt það er að hafró og útgerða fyrirtæki vinni saman.“