sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bæjarstjórn Ísafjarðar krefst aukins þorskkvóta

12. janúar 2009 kl. 13:47

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar krefst þess að sjávarútvegsráðherra heimili nú þegar auknar þorskveiðar á Íslandsmiðum. „Ljóst má vera að nýjustu rannsóknir á stofnstærð sýna að auka má þorskveiðiheimildir um að minnsta kosti 50 þúsund tonn á þessu ári án þess að markmið um sjálfbærni þorskstofnsins sé stefnt í hættu. Við núverandi aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar er ekki verjandi að bíða með ákvörðun um aukna þorskveiði“, segir í tillögu Í-listans sem samþykkt var á síðasta bæjarstjórnarfundi.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vill ennfremur minna á fyrri áskorun sína um betri nýtingu línuívilnunar í þorski, þar sem úthlutað aflamagn kemur ekki að notum, nema hlutfalli ívilnunar sé breytt. Aukinn þorskafli skilar margföldum arði í þjóðarbúið og bætir hag sveitarfélaga á landsbyggðinni.

Í-listinn lagði einnig til að auknar veiðiheimildir verði að hluta til boðnar út á almennum markaði og afraksturinn renni að stærstum hluta til hinna dreifðu byggða, sem átt hafa í vök að verjast vegna samdráttar í sjávarútvegi. Meirihluti bæjarstjórnar kvaðst þó ekki geta fallist á að ef bætt verði við veiðiheimildir, að þær renni ekki til þeirra sem hafa ítrekað orðið fyrir skerðingu. „Það er grundvallaratriði, að þeir sem hafa skuldbundið sig í útgerð, njóti þess þegar bætt verður við aflaheimildir,“ segir í fundarbókun.

bb.is skýrir frá þessu.