þriðjudagur, 25. september 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Böndum komið á þrávirku efnin

7. október 2017 kl. 08:00

Davíð Egilson tók virkan þátt í mótun Stokkhólmssamninginn um þrávirk lífræn efni, sem undirritaður var 2001. MYND/GB

Þann 22. maí árið 2001 var undirritaður í Stokkhólmi alþjóðlegur samningur um þrávirk lífræn efni. Íslendingar áttu drjúgan hlut að því að þessi samningur varð að veruleika

„Þetta er að mínu viti mjög merkileg saga,“ segir Davíð Egilson, sem var árum saman fulltrúi Íslands á alþjóðlegum fundarhöldum þegar reynt var að fá sem allra flestar þjóðir heims til að sættast á samning. Hann sendi nýverið frá sér bókina Undrið litla þar sem þessi saga öll er rakin.

Þrávirk lífræn efni komu fyrst fram á sjónarsviðið um 1940 en þá var mannkynið vart farið að gera sér grein fyrir því hve efnamengun í umhverfinu getur verið hættuleg.

„Það er ekki fyrr en svona upp úr seinna stríði sem menn fara fyrst að átta sig á umhverfismálunum, að maðurinn hefur kannski verið að ganga dálítið nærri náttúrunni á margan hátt,“ segir Davíð.

Áhyggjur Íslendinga
Íslendingar fóru síðan að taka við sér um 1970, um svipað leyti og fyrstu alþjóðasamningarnir um umhverfismál voru að líta dagsins ljós. Og það er ekki síst hafið sem Íslendingar höfðu áhyggjur af.

„Við sem eyþjóð, sitjandi hérna á stórri prótínverksmiðju, vorum farin að hafa verulegar áhyggjur af því að það væru að koma hingað mengandi efni til landsins. Á þessum tíma, þegar menn höfðu kannski litla umhverfisvitund, var lausnin oftast sú að losa sig við hættuleg efni með því að fara með þau út á sjó og hella þeim niður.“

Hann segir að Evrópuþjóðirnar, þar á meðal Norðurlöndin öll, hafi verið farnar að hafa miklar áhyggjur af þessu og Íslendingar urðu líka fljótt mjög virkir.

„Hjálmar R. Bárðarson, sem var okkar siglingamálastjóri, var mjög vakandi fyrir þessu á sinni tíð. Þegar ég kom að þessu var hann orðinn fullorðinn maður,“ segir Davíð, sem frá árinu 1991 tók virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og samningaferli sem laut einkum að vernd hafsins.

Þetta er um það leyti sem Ríó-ráðstefnan er haldin og þá eru menn líka farnir að hafa áhyggjur af því að þessi þrávirku lífrænu efni eru farin að mælast í umhverfinu.

„Þá eru þessi efni búin að vera í notkun í fimmtíu ár og þetta sést orðið vel í náttúrunni um allan heim Við erum líka byrjuð að sjá þessi efni hérna þótt við höfum ekki verið að framleiða þau. Málið er að við höfðum áhyggjur af þessu vegna þess að ef minnsti grunur leikur á því að það sé mengandi efni í sjávarafurðinni hér þá myndi markaðurinn hrynja.“

Átta ára ströng lota
Í framhaldi af þessu hefst vinna Íslendinga og annarra að því að samþykktur verði alþjóðasamningur um bann við notkun þrávirkra lífrænna efna. Þeirri vinnu allri lýsir Davíð í bókinni sinni, og ljóst er að á ýmsu gekk í samningaferlinu, sem á endanum varð átta ára ströng lota.

Átakalínan í þessum samningaviðræðum snerist ekki síst um ólíka hagsmuni auðugu landanna á norðurhveli jarðar, sem voru flest hver fús til að komast að samkomulagi, og svo þróunarlandanna í suðri sem sáu fram á að eiga erfitt með að skuldbinda sig í dýrar aðgerðir.

„Við vorum til dæmis á fundi í Filippseyjum 1996 þar sem skoðað var hvort til væru staðgenglar fyrir þessi efni, til dæmis DDT, sem var meðal annars notað til að verjast malaríu. Ekki vildum við fara að banna efni sem hjálpa fólki, en þá var ákveðið að setja bara inn undanþágu. Þau mættu nota efnið þangað til búið væri að finna staðgengla. Mér fannst alltaf skipta mestu að horfa á hagsmuni þjóða en ekki afstöðu, ekki skjóta strax niður tillögur heldur huga betur að orðalagi og reyna að finna lausnir.“

Ótvíræður árangur
Nú eru sextán ár liðin frá því Stokkhólmssamningurinn um þrávirk lífræn efni var undirritaður, og árangurinn er ótvíræður.

„Þetta er held ég alveg einstætt, 179 lönd hafa staðfest staðfest samninginn og hann er mjög virkur. Barnið er orðið fullorðið en það hefur lítið farið fyrir þessari sögu.“

Þrávirku efnin eru flest hver á undanhaldi, en nokkur þeirra eru það þrálát i umhverfinu að ekki er sjáanlegt að þau séu að étast niður. Það mælist hins vegar engin aukning í þeim lengur.

Íslendingar fóru út í þessa vinnu ekki síst með íslenskan sjávarútveg í huga.

„Þetta var náttúrlega unnið fyrir hann. Markmið íslenskra stjórnvalda var alltaf að tryggja að afurðir okkar yrðu framleiddar í heilnæmu góðu umhverfi, það er okkar alfa og ómega í þessu.“

Nú er það örplastið
Á allra síðustu misserum hefur mannkynið áttað sig æ betur á því að örplastið er nú einn skæðasti óvinur lífríkisins í höfunum. Þar hafa engir samningar verið gerðir og þreifingar varla farnar af stað, hvað þá alvöru viðræður.

„Já, nú þarf bara að fara að horfast í augu við það,“ segir Davíð. „Og það verður örugglega annar eins slagur. Allt snýst það um að finna leið til að örva þjóðirnar til dáða, finna hver er akkur hverrar þjóðar.“

Á sínum tíma reyndist mjög auðvelt að koma á samstarfi milli Norðurlandanna um þrávirku efnin: „Þau voru öll að finna fyrir drullunni hvert frá öðru. Það er öðru vísi með örplastið, það gæti orðið dálítið erfitt að örva fólk til dáða svo þetta takist nú allt.“