laugardagur, 17. nóvember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breytingar sjást í beinunum

5. desember 2017 kl. 08:00

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir. MYND/RAGNAR EDVARDSSON

Líffræðilegar rannsóknir á fiskbeinum sem fundist hafa við fornleifarannsóknir á vestfirskum verstöðvum gefa til kynna að verulegar breytingar hafi orðið á fæðu fiska hér við land um aldamótin 1900.

Einmitt um þetta leyti jukust umsvif fiskveiða mikið hér við land. Munaði þar ekki síst um togveiðar, sem þá voru að hefjast. Bretar hófu togveiðar hér við land um 1890 og Íslendingar fljótlega upp úr aldamótunum.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknarstofu Háskóla Íslands á Vestfjörðum, hefur árum saman stundað rannsóknir á fiskbeinum, bæði DNA-rannsóknir og rannsóknir á stöðugum efnasamsætum kolefnis og niturs í beinunum.

Guðbjörg Ásta segir þennan efnivið gefa ómetanleg tækifæri til að skilja breytingar á vistkerfi sjávar og fiskistofnum í kjölfar umhverfisbreytinga og aukinnar nýtingar fiskistofna.

Nýjar niðurstöður kynntar
Fiskifréttir hafa áður fjallað um rannsóknir hennar, sem hafa meðal annars staðfest að verulegar vistkerfisbreytingar urðu í hafinu um miðja sextándu öld þegar hin svokallaða ísöld ríkti. 

Síðastliðinn föstudag kynnti hún síðan nýjar niðurstöður þar sem þessum aðferðum er beitt til að rannsaka fæðu þorsks, lúðu, steinbíts, ýsu og karfa við Vestfirði á tímabilinu 970-1910.

Niðurstöðurnar gefa til kynna töluverðar sveiflur í fæðu fiskanna yfir tímabilið auk breytinga á fjölbreytileika fæðunnar og fæðusamkeppni milli fisktegunda.

„Áberandi tímabil vistkerfisbreytinga virðast vera annarsvegar við upphaf „litlu ísaldar“ og hinsvegar um 1900,“ segir Guðbjörg Ásta.

Mestra breytinga á efnasamsætunum verður þó vart á nítjándu öld: „Hjá þorski sérstaklega verður mikil lækkun á gildum niturssamsæta og meiri breytileiki í metinni fæðuvist.“

Þessa niðurstöðu segir hún gefa til kynna, í samhengi við aðrar breytingar á fæðuvist á þessu tímabili, að aukið umfang fiskveiða, þar á meðal tilkoma togveiða, hafi breytt vistkerfi fiskanna.

Sjá fyrri umfjöllun Fiskifrétta hér og hér.

gudsteinn@fiskifrettir.is