föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Búið að landa 6.600 tonnum af gulldeplu

3. febrúar 2009 kl. 09:11

17 skip hafa fengið tilraunaveiðileyfi

Fjögur skip hafa landað samtals um 6.600 tonnum af gulldeplu, samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Huginn VE hefur landað um 3.000 tonnum í fimm löndunum, Hoffell SU tæplega 1.900 tonnum í þremur löndunum, Birtingur NK rúmlega 1.100 tonnum í þremur löndunum og Aðalsteinn Jónsson SU tæplega 600 tonnum í einni löndun.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur veitt 17 skipum leyfi til tilraunaveiða á gulldeplu og gilda leyfin frá 1. febrúar til 15. febrúar 2009. Skulu tilraunaveiðarnar fara fram undir eftirliti Hafrannsóknastofnunar og skal starfsmaður hennar eða Fiskistofu vera um borð í hverju skipi á meðan á veiðunum stendur, að því marki sem stofnanirnar telja nauðsynlegt, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Eftirlitsaðilum er heimilt að krefjast greiðslu alls kostnaðar sem vera eftirlitsmanns um borð í skipi kann að leiða af sér. Leyfi til tilraunaveiða á gulldeplu eru meðal annars bundin þeim skilyrðum að þær séu stundaðar á dýpi sem er meira en 200 metrar og að bolfiskur sé aðgreindur frá öðrum afla við dælingu úr veiðarfæri í lestar skipsins.