þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dæmdur fyrir að valda árekstri á sjó

5. mars 2008 kl. 12:29

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt skipstjóra til greiðslu sektar fyrir að hafa með yfirsjón og vanrækslu orðið valdur að árekstri við annað skip. Manninum, sem var einn í áhöfn á 2,2 brúttórúmlesta fiskiskipi, var gert að sök að hafa vanrækt að fylgjast með siglingu annars báts í norðurátt í góðu skyggni á úti fyrir Dýrafirði með þeim afleiðingum að skipið sigldi á bátinn þar sem hann var að veiðum og lét reka.

Báturinn sökk til hálfs og mannbjörg varð. Skip hins sakfellda var hins vegar dregið til hafnar á Þingeyri mikið skemmt. Frá þessu er skýrt á vefnum bb.is

Sá sakfelldi sagði fyrir dómi að hann gæti ekki gefið skýringu á því af hverju hann varð ekki var við hinn bátinn þar sem hann hafi verið uppi við og verið að horfa í kringum sig. Hinn skipstjórinn sagðist að veiðarfærin hefðu verið úti og dautt á aðalvél bát hans. Hann hefði þá séð bát koma siglandi og gert sér grein fyrir því að ekki væri allt með feldu. Bullandi lens hefði verið hjá hinum bátnum og hann skorið sig mjög mikið á lensinu. Kvaðst maðurinn hafa farið strax inn í stýrishús bátsins til að ræsa aðalvélina og verið að leggja höndina á kveikjuláslykilinn þegar báturinn hefði skollið á skipi hans.

Við ákvörðun refsingarinnar var tekið mið af ákærði hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var manninum því gert að greiða 200.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fjórtán daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.