miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eins og að slá gras sem vex aftur

Guðsteinn Bjarnason
10. mars 2018 kl. 08:00

Þangbrandur, skipið sem keypt var til þangvinnslunnar. MYND/Félagsbúið Miðhraun

Sigurður Hreinsson, bóndi á Miðhrauni 2 á Snæfellsnesi, segist ótrauður ætla að hefja þörungavinnslu með hækkandi sól þrátt fyrir tafir og áföll.

„Við erum núna i samvinnu við Asco Harvester að kanna tæki og tól. Við erum með ýmsa vísindamenn héðan og þaðan úr heiminum með okkur að skoða þetta allt, og það er ýmislegt í gangi,“ segir Sigurður Hreinsson, bóndi á Miðhrauni 2 á Snæfellsnesi.

Hann hyggst á næstunni hefja þangvinnslu og hefur lagt út í töluverðar fjárfestingar í þeim tilgangi, keypt bæði skip og vélabúnað og reist hús undir starfsemina.

„Í raun og veru vorum við að bíða eftir lagasetningunni. Tæknilega séð gátum við farið af stað fyrir þó nokkru síðan en vildum það ekki fyrr en það ferli allt væri komið, þannig að við höfum raunverulega ekki getað hreyft okkur almennilega fyrr en núna þegar þetta fer að fara af stað.“

Alþingi samþykkti síðastliðið sumar lagaramma fyrir öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Gerðar voru breytingar á þremur lagabálkum, nefnilega lögum um fiskveiðistjórnun, lögum um veiðigjald og lögum um umgegni um nytjastofna sjávar.

Meðan lagabreytingarnar voru í undirbúningi gerði Sigurður athugasemdir við lagafrumvarpið. Einnig sendu bændur við Breiðafjörð inn ýmsar athugasemdir.

Lögin orðin að veruleika
Sigurður segist samt ekkert vera sérstaklega ósáttur við niðurstöðuna, lögin séu orðin að veruleika og eftir þeim þurfi menn að starfa.

„Það er helst að maður átti sig ekki á því hvers vegna þeir voru að blanda fiskveiðistjórnunarkerfinu inn í þetta. Menn hefðu frekar átt að byrja á auðu blaði, skrifa alveg ný lög og gefa sér meiri tíma í það.“

Sigurður segir þang og þara vaxa í gríðarmiklu magni víða um land, en til þessa hafi eingöngu verið gerðar rannsóknir í Breiðafirði.

„Það eru 1,2 – 1,4 milljónir tonna af þangi í Breiðafirði, og það er bara klóþangið og bara í Breiðafirði. Svo er stórþarinn eftir. Það eina sem byrjað er að rannsaka er Breiðafjörðurinn.“

Sigurður sagðist samt ekki alveg átta sig á hættunni.

„Ég skil svo sem alveg prinsippið á bak við, en þetta er bara þari og þang sem vex í fjörunum og rifnar líka oft upp,“ segir hann. „Það sem við erum að gera er í raun og veru bara að slá gras, sem svo vex bara aftur. Við erum búnir að gera þetta í áratugi.“

Hausaþurrkun úr sögunni
Hann búinn að fá leyfi og vonast til að geta farið af stað með hækkandi sól þegar búnaðurinn hefur verið prófaður betur.

Félagsbúið Miðhraun var stofnað árið 1988 af þeim hjónum Bryndísi Guðmundsdóttur og Sigurði Hreinssyni. Helsta starfsemi Félagsbúsins var lengi vel hausaþurrkun og voru afurðirnar seldar á Nígeríumarkað.

Árið 2016 varð hins vegar mikið tjón í stórbruna að Miðhrauni þar sem aðstaða til þurrkunar brann meðal annars til grunnar.

„Það setti allt hitt á hliðina hjá okkur. Við ætluðum að fara í þangið við hliðina á aðalatvinnugrein okkar, og ætluðum þá að vera í þanginu á sumrin bara. En svo hverfur þetta frá okkur.“

Hann segist ekki reikna með því að fara út í þurrkun aftur.

„Nei, ég reikna varla með því. Við vorum búin að byggja þetta upp í mörg ár og það yrði svo margfalt dýrara að fara að reisa heila verksmiðju aftur.“