mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekkert nýtt af loðnunni ennþá

6. febrúar 2009 kl. 14:20

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson heldur áfram mælingum

,,Það er ekkert nýtt að frétta af loðnunni ennþá. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er að leita suðaustan við landið eftir ábendingum frá skipum, sem orðið hafa vör við loðnu, en ekkert stórt hefur fundist. Þeir eru núna rétt ofan við Hvalbakshallið, ætla að skoða Breiðdalsgrunnið og fara svo dýpra þar sem megingangan gæti legið.”

Þetta sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun þegar Fiskifréttir ræddu við hann skömmu fyrir klukkan 14 í dag. Þetta þýðir að ekki er komin innistæða fyrir veiðikvóta enn sem komið er.

Fram kom í máli Þorteins að uppsjávarskipið Guðmundur VE, sem var að koma frá Þórshöfn, hefði tekið á sig krók til að fylgjast með djúpkantinum og skoða svæðið suður fyrir Seyðisfjarðardýpi en hefði lítið séð.

,,Við munum að sjálfsögðu halda áfram að fylgjast með loðnunni, en þar sem hún virðist vera dreifð og gisin á frekar stóru svæði verður sennilega að óbreyttu erfitt að ná mælingu á hana fyrir en hún er komin upp í fjöruna vestan við Stokksnesið og áfram þar fyrir vestan,” sagði Þorsteinn.