fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki mikill krafur í veiðunum

31. maí 2017 kl. 08:41

Víkingur AK.

Kolmunnaveiðar eru þolinmæðisvinna, segir skipstjórinn á Víkingi AK

Víkingur AK er kominn til Vopnafjarðar með um 2.150 tonn af kolmunna. Venus NS fór frá Vopnafirði í gærkvöldi eftir stutt stopp en skipið kom til hafnar snemma í gærmorgun með um 2.400 tonn af kolmunna, að því er fram kemur á vef HB Granda.

Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Víkingi, er frekar rólegt yfir kolmunnaveiðunum í færeysku lögsögunni.

,,Við vorum að hífa þetta 210 til 400 tonn eftir 19 til 20 tíma hol þannig að það var ekki mikill kraftur í veiðunum. Þetta er því þolinmæðisvinna,“ segir Albert en hann var með skipið á veiðum norðaustan við Færeyjar í veiðiferðinni.

,,Kolmunninn er blandaður af stærð og ágætt hráefni. Ég á von á því að við skjótumst út aftur fyrir sjómannadag og reynum að ná einhverjum tonnum. Það er verst hve langt er á miðin en þangað er 30 tíma sigling frá Vopnafirði,“ segir Albert Sveinsson.