sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn óvissa um ástand síldarstofnsins

5. nóvember 2009 kl. 15:08

Sýkingin í íslenska síldarstofninum er viðvarandi. Bergmálsmælingar sýna hins vegar svipaða stofnstærð og í fyrra, sem kemur vísindamönnum á óvart. Sýkingin hefði átt að hafa höggvið stór skörð í stofninn. 

,,Við vorum búnir að gera ráð fyrir verulegum afföllum milli ára í ljós sýkingarinnar og því skýtur þessi mæling nokkuð skökku við,” segir Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir. ,,Við leituðum mikið og víða í fyrrahaust en vorum aldrei sáttir við það magn sem við fundum þá samanborið við fyrri ár. Spurningin er hvort ekki hafi náðst rétt mæling á stofninn í fyrra eða hvort eitthvað annað sé að gerast svo sem það að yngri fiskur sé að koma inn í mælinguna. Hafa þarf í huga að bergmálsmælingin ein og sér gefur ekki heildarmynd af stofnstærðinni. Við þurfum líka að skoða aldurssamsetninguna og meta stærð stofnsins með aldurs-afla líkönum. Heildarniðurstaðan fæst ekki fyrr að þeirri vinnu lokinni, sem við vonumst til að geti orðið allra næstu daga.

Nánar er rætt við Þorstein í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.