fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

FAO sérfræðingar styðja tillögu um túnfiskbann

21. desember 2009 kl. 13:23

Sérfræðingar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) telja að fram séu komin nægileg rök fyrir því að sett verði alþjóðlegt bann við verslun með afurðir Atlantshafs bláuggatúnfiskstofnsins vegna þess hve illa hann sé á sig kominn.

Samkvæmt frétt á vef World Fishing hefur álit sérfræðinga FAO almennt mikil áhrif í atkvæðagreiðslu á aðalfundi CITES, sem fjallar um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu, en fundurinn verður haldinn í Doha í Qatar í mars næstkomandi.

Þess má geta að Íslendingar eiga örlítinn hlut í bláuggatúnfiskkvótanum. Kvóti Íslands hefur verið um 50 tonn á ári. Útgerð Eyborgar frá Hrísey nýtti kvótann í fyrra í samvinnu við fyrirtæki í Líbýu og var fiskinum ráðstafað í áframeldi á Möltu. Á þessu ári var íslenska kvótanum ekki úthlutað.

Ástand Atlantshafs bláuggatúnfisksins sem veiðist bæði í Miðjarðarhafi og Norður-Atlantshafi hefur lengi verið áhyggjuefni, en flestir viðurkenna að stofninn hafi verið gróflega ofveiddur lengi. Kvótinn fyrir næsta ár var nýlega ákveðinn rúmlega 13.000 tonn sem er næstum þriðjungs samdráttur frá yfirstandandi ári.