miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimmfalt minna á land eftir bann

7. mars 2018 kl. 15:00

Lúða kemur á línukrók á hefðbundnum línuveiðum. (Mynd: Guðlaugur Abertsson)

Svo virðist sem að bann við beinum veiðum á lúðu hafi skilað árangri

Beinar veiðar á lúðu hafa verið bannaðar frá árinu 2012, en Hafrannsóknastofnun hafði þá í mörg ár bent á að viðkomubrestur hefði orðið í stofninum og nýliðun lítil. Fyrir bannið á árunum 2007 til 2011 veiddust 430 til 550 tonn á ári, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Aflinn datt niður í um 35 tonn fyrsta ár veiðibannsins en hefur verið að aukast síðan jafnt og þétt og var um 88 tonn árið 2015, 122 tonn árið 2016 og 104 tonn í fyrra.

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, gerði lúðuveiðar að umtalsefni á Alþingi á dögunum og frá Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, barst svar sem fyllir upp í myndina hvað varðar þróun mála fyrir og eftir bann.

Þar kemur fram að vísitölur lúðu jukust á milli áranna 2014 og 2015 en hafa undanfarin þrjú ár verið á svipuðu róli og á árunum 2002 til 2007. Eru líkur leiddar að því að batnandi staða stofnsins sé árangur löndunarbanns á lúðu.

Varnaðarorð hunsuð
Hafrannsóknastofnun hafði lagt til allt frá árinu 1997 að bein sókn í lúðu yrði óheimil. Þvert á þessa ráðgjöf jókst bein sókn með haukalóðum stórlega árið og árið 2010 voru 46% lúðuaflans veidd með haukalóðum. Svo fór að ráðherra setti á laggirnar starfshóp í júní það ár sem fjallaði um stöðu lúðustofnsins.

Í niðurstöðum starfshópsins kom fram að erfitt væri að eiga við lúðuveiðar þar sem ákveðinn hluti landaðs afla væri meðafli þar sem lágt hlutfall landaðs afla væri lúða og því hefðu lokanir á ákveðnum svæðum takmörkuð áhrif til verndunar lúðustofnsins en merkjanleg áhrif á aðrar veiðar. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að vernda lúðustofninn væri að banna beina sókn í lúðu með haukalóðum.

Lokanir útilokaðar
Í júlí árið 2011 óskaði ráðherra eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar um næstu skref í friðun. Einkum tvennt var talið koma til greina. Lokun veiðisvæða þar sem unglúða heldur sig eða sleppingar á allri lífvænlegri lúðu sem veiðist sem meðafli. Stofnunin kallaði reynda skipstjórnarmenn til samráðs. Heildarniðurstaðan var að svæðalokanir væru slæmur kostur þar sem sú aðgerð myndi þýða umtalsverðar hömlur á veiðum annarra tegunda. Sleppingar á lífvænlegri lúðu þóttu skárri kostur, þó að á honum væru ýmsir gallar, t.d. hvað varðaði botnvörpuveiðar.