miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölfræðingurinn Árni Friðriksson

Guðsteinn Bjarnason
28. desember 2018 kl. 07:00

Árni Friðriksson fiskifræðingur, pennateikning frá 1953. MYND/Hafrannsóknarstofnun

Í kreppunni miklu, árið 1932, taldi Árni Friðriksson fiskifræðingur dragnótina geta komið þjóðinni að gagni með skarkolaveiðum í stórum stíl.

„Nú gengur óæri yfir land og lýð, kreppan,“ skrifar hinn merki fiskifræðingur Árni Friðriksson árið 1932 í bók sinni, Skarkolaveiðar Íslendinga og dragnótin. „Atvinnuvegir vorir liggja að miklu leyti í rústum, ekki síst fiskveiðarnar, sem eru máttarstoðin undir velmegun landsmanna. Útgerðin er nú komin á það stig, að framleiðslan svarar varla kostnaði, að minnsta kosti ekki með því fyrirkomulagi, sem nú er.“

Árni var þá rétt rúmlega þrítugur, nýkominn heim til Íslands eftir nám og störf í Danmörku, vildi leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins og nýta til þess þá þekkingu sem hann hafði aflað sér. Hann var í senn vísindamaður og alþýðufræðari á sínu þekkingarsviði.

Hann sá möguleika í skarkolanum, flatfisktegund sem Íslendingar höfðu ekki sýnt mikinn áhuga. Þorskurinn og síldin höfðu þá verið helstu nytjafiskar Íslendinga um langt skeið, en útgerðin var í vanda stödd.

„Útgerðarkostnaður við þorsk- og síldveiðar er mjög mikill, og erfitt að finna góðan markað fyrir sjávarafurðirnar, svo verðið lækkar mánuð eftir mánuð,“ skrifar Árni. „Á slíkum tímum væri ekki vanþörf á, ef hægt væri að beina útveginum inn á nýjar framfarabrautir, þótt ekki væri nema í smáum   stíl, allt er betra en ekkert. Ein af leiðunum til þess að bæta hag margra landsmanna er vafalaust sú, að nota þau auðæfi til hlítar, sem landið og hafið umhverfis það ber í skauti sínu, en ein af þeim fáu uppsprettulindum, sem nú er tímabært að ausa úr, er einmitt skarkolastofninn á miðum landsins.“

Árni sagði tvennt koma til greina við skarkolaveiðar, annað hvort yrði hann veiddur með dragnót eða botnvörpu. Dragnótin hafði þar mikla yfirburði, að mati Árna.

„Skarkolaveiðar með botnvörpu verða allt af einskorðaðar við lítið svæði fyrir utan landhelgislínuna, og auk þess er togaraútgerðin  hér allt of dýr, til þess að skarkolaveiðar geti borgað sig fyrir hana.“

Eitt meinlausasta veiðarfærið
Þess vegna er það dragnótin sem Árni mælir eindregið með, og segir hana hafa marga kosti sem miklu skipta fyrir fátæka þjóð á krepputímum.

„Öllu sem hugsast getur að mæli á móti dragnótinni, hefir verið haldið fram, og notað sem vopn á dragnót og skarkolaveiðar í landhelgi. Dragnótin hefir átt að eyðileggja sjávarbotninn, dragnótin hefir átt að eyða ungviði nytjafiskanna, hún hefir átt að fæla burt fisk eða á annan hátt spilla veiði. “

Hann segir að dragnótinni hafi jafnvel verið kennt um marflær sem mikið var af í Faxaflóa eitt haustið. Þetta segir hann fráleitt: „Það er jafn-mikil fjarstæða að kenna dragnótinni um marflóna, eins og ef henni væri talinn hjónaskilnaður í Reykjavík eða manndauði í Skagafirði til saka.“

Hann segir heldur ekkert hæft í því að dragnótin „urgi upp botninum“, með þeim afleiðingum að sjórinn verði „einn grautur af sandi og leir, en þetta dræpi fisk í stórum stíl, því leirinn settist í tálknin. Þessi staðhæfing er röng. Það sannaðist nefnilega í Kötlugosinu 1918, að öskufall í sjóinn er alveg meinlaust, það getur ekki gert fiski neitt tjón. Um og eftir Kötlugosið var mokafli í Vestmannaeyjum, svo hvorki leit út fyrir að askan fældi fiskinn né dræpi hann. Það er alkunnugt að síld sækir mjög inn undir árósa, en einmitt þar er sjórinn óhreinastur, vegna framburðar ánna. Þá væri það hverjum manni skiljanlegt, að skarkolanum væri illa farið, ef hann þyldi ekki lítlsháttar leir eða sand, þar sem hann lifir oft grafinn niður í sandinn og leirinn.“

Hann segist þannig hafa reynt að sýna fram á að dragnótin sé „eitthvert meinlausasta veiðarfæri, sem til er.“
Flestar mótbárurnar gegn henni séu, „þegar þær eru gagnrýndar, á litlum rökum byggðar.

Margir spáðu því síðastliðið haust, að dragnótaveiðar Keflavíkurmanna myndu valda því, að ekki gengi fiskur á mið Faxaflóa í vetur, en hvernig hafa þeir spádómar ræzt, hvernig fiska Keflvíkingar nú? Og svona mætti halda áfram að telja. Flestar mótbárurnar stafa af ýmugusti gegn veiðarfærinu, ekki sízt vegna þess að það er nýjung; það er langt frá því að þær séu dómur á kostum þess og göllum.“

Skarkolinn. MYND/Jón Baldur Hlíðberg

Svo útlendingar yrðu frá að hverfa
Árni segir hinn íslenska skarkolastofn reyndar bera þess greinileg merki að verið sé að eyða honum. Þess vegna komi ekki á óvart að margir vilji „friða hann og vernda eins vel og unnt er, og þá fyrst og fremst að banna þau veiðarfæri, sem sérstaklega eru ætluð til skarkolaveiða, eins og t.d. dragnótina.“

Hann vill þó hafa fyrirvara á friðunaraðgerðum hvað skarkolann varðar. Undir flestum kringumstæðum væru friðunarráðstafanir vera sjálfsagðar, „en eins og hér stendur á, yrðu þær þjóðinni til hagsmunalegs tjóns, svo útkoman yrði alveg öfug við það, sem hún ætti að vera.“

Árni telur auk þess enga þörf á friðunaraðgerðum.

„Ef vér Íslendingar værum að eyða skarkolanum hérna, væri ekkert auðveldara og ekkert sjálfsagðara en að reisa rönd við of mikilli hrörnun stofnsins, enda kæmi friðunin okkur að gagni, þegar fram í sækti. En það vill nú einu sinni svo til, að útlendingar eru sem stendur einir um skarkolaveiðar hér, og þess vegna eru það þeir sem eyða stofninum, án þess að við getum á nokkurn hátt varnað þess.“

Þarna liggur sú merking undir að helst þyrfti að koma í veg skarkolaveiðar útlendinga, en þá strandar á því að landhelgisgæsla Íslendinga hefði engan veginn ráðið við það verkefni.

„Það er ekki von, að landhelgisgæzlan hér sé svo fullkomin, að hægt sé að verja landhelgina algerlega fyrir yfirgangi erlendra fiskimanna,“ segir Árni. Því telur hann að besta vörnin væri „að skipa bátunum okkar á miðin til skarkolaveiða, svo útlendingar yrðu frá að hverfa.“

Menningarskortur
„Þorskveiðum og síldveiðum Íslendinga hefir farið stórkostlega fram á öldinni, sem er að líða, en skarkolann okkar veiðum við svo að segja ekki, heldur látum aðrar þjóðir eyða honum fyrir okkur,“ segir Árni, og kallar það hreinlega menningarskort af hálfu Íslendinga að þeir skuli láta útlendingum eftir skarkolann að mestu.

„Það er virðingarvert, að fiskimenn vorir skuli nú bera höfuð og herðar yfir keppinauta sína við strendur landsins, þegar um síld- og skarkolaveiðar er að ræða, því þessar tvær greinar útvegsins eru óneitanlega merkastar hér við land, en það má líta á það sem menningarskort, að við skulum ekki hagnýta okkur betur bezta fiskinn á miðum landsins, heldur láta aðra ausa brunninn þangað til enginn dropi er eftir.“

Óvinir skarkolans
Árni ræðir nokkuð þær náttúrlegu hættur sem steðja að skarkolanum. Í æsku eigi hann alla þá óvini sem ofsækja þorskinn og sildina, en „skarkolinn er að því leyti frábrugðinn þorskinum og síldinni, að hann er reglulegur botnfiskur, og þar við bætist, að hann lifir einungis á mjúkum botni, og það einkum á grunnsævi, eða með öðrum orðum á þeim slóðum, þar sem sérstaklega er auðvelt að ná honum með botnvörpu. Skarkolinn er svo að segja aldrei uppi í sjó og aldrei á hörðum, grýttum botni, hann er alltaf, þar sem lífi hans er mest hætta búin.“

Af þessum ástæðum segir hann auðveldara að eyða skarkolanum með ofveiði en flestum öðrum fiskum, „ekki sízt hér við land, þar sem hann lifir á hlutfallslega mjóu belti hringinn í kringum landið, og enda ber skarkolastofninn okkar þess ljósan vott, því svo mikið er víst, að hér hefur skarkolinn minnkað og honum fækkað síðan fyrst var farið að veiða hann.“

Tölurnar segir hann sýna að stofninn hafi verið í fullum blóma þegar skarkolaveiðar byrjuðu hér fyrir alvöru. „Þá fiskaðist lang-mest af stórum kola. Síðan hefur stóra kolanum fækkað smám saman, og nú er því stigi náð, að mest veiðist af miðlungs stórum kola. Loks mun koma að því, að aðallega veiðist smákoli, lítið af miðlungskola, og lítið sem ekkert af stórum kola.“

Skarkolinn nú á tímum
Útlendingar hættu að veiða skarkola hér við land um miðjan áttunda áratuginn. Áratug síðar, um miðjan níunda áratuginn, tóku Íslendingar síðan að veiða skarkola í miklu meira magni en áður hafði tíðkast, allt upp í 14 þúsund tonn, en síðan dró aftur úr þeim veiðum og hefur aflinn haldist fimm til sjö þúsund tonn á ári allt frá síðustu aldamótum.

Hafrannsóknastofnun segir, í nýjustu skarkolaráðgjöf sinni, að veiðistofninn hafi farið vaxandi frá aldamótum. Nýliðun skarkola hefur verið stöðug frá árinu 1994 og veiðidánartalan verið nálægt settu marki frá 2011. Síðan 2002 hefur veiðisvæðum verið lokað á hrygningartíma. Ráðgjöf fiskveiðiársins 2018-19 hljóðar upp á 7.132 tonn.

Fjölfræðingurinn Árni
Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson eru helstu frumkvöðlar Íslendinga í fiskifræði og hafrannsóknum. Rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar eru nefnd eftir þeim.

Árni var fæddur 1898, hélt til Kaupmannahafnar að loknu stúdentsprófi að nema dýrafræði. Hann lauk meistaraprófi árið 1929, þá þrítugur að aldri. Að loknu námi vann hann fyrst í tvö ár hjá dönskum fiskifræðingi en hann hélt síðan til Íslands og varð ráðgjafi hjá Fiskifélagi Íslands og síðar forstöðumaður Fiskideildar Háskóla Íslands.

Þegar hann kom heim var hann rétt rúmlega þrítugur og tók þegar til við að uppfræða Íslendinga um hin margvíslegustu efni náttúrufræðinnar, einkum dýrafræði og grasafræði. Þetta gerði hann bæði með reglulegum erindum í útvarpi og með greinum sem hann skrifaði í Náttúrufræðinginn, tímarit sem hann stofnaði ásamt félaga sínum, Guðmundi G. Bárðarsyni jarðfræðingi, og kemur það enn út.

Strax árið 1932 sendi Árni frá sér tvær bækur. Önnur hét Aldahvörf í dýraríkinu, stutt ágrip af sögu lífs og dýra á jörðinni. Sú bók er byggð á erindum sem hann flutti í útvarpinu og hlutu mjög góðar viðtökur.

Hin bókin nefnist Skarkolaveiðar Íslendinga og dragnótin, en þar er hann kominn á kaf í fiskifræðina og tekinn til við að ráðleggja Íslendingum í þeim efnum.

Merkasta framlag Árna til fiskifræðinnar eru þó jafnan taldar rannsóknir hans á síldinni sem veiðist fyrir norðan Ísland, en hann sýndi fyrstur fram á það að hún gengur milli Íslands og Noregs. Það sannaðist með merkingum Árna, þegar síldin sem hann merkti hér við land veiddist í stórum stíl út af Noregsströndum.

Árni var framkvæmdastjóri Alþjóðahafrannsóknaráðsins í um áratug, en hann lést árið 1965.

 

Hér að neðan eru birt nokkur sýnishorn úr skrifum hans, bæði úr Náttúrufræðingnum og bókinni Aldahvörf úr dýraríkinu.

Tíminn grefur okkur gröf
„Allt er á hverfanda hveli í tilverunni, ekkert stendur kyrrt eitt einasta augnablik,“ skrifar Árni í niðurlagsorðum bókar sinnar, Aldahvörf í dýraríkinu, sem kom út árið 1932, þá nýkominn til landsins rétt rúmlega þrítugur eftir nám og störf í Kaupmannahöfn. Þetta sama ár stofnaði hann Náttúrufræðinginn og sendi jafnframt frá sér kver sitt um skarkolaveiðar.

„Það, sem byggt er í dag, fellur á morgun, en upp úr rústum þess rís aftur ný bygging, ef til vill stærri og veglegri en hin, se hrundi. Einstaklingarnir fæðast og vaxa, njóta fjörs og gleði, standa um hríð í blóma lífsins, en falla þó í valinn að lokum. En oft láta þeir þó eftir sig „orðstír, sem deyr aldregi“. Sömu kjörum og einstaklingarnir verða einnig ríki og þjóðfélög mannheimsins að hlíta. Hvert heimsveldið eftir annað fæðist, þróast, blómgast, eldist og deyr. Þannig er líf mannkynsins, en þannig er einnig líf dýra og jurta. Eins og einstaklingnum er skapaður aldur, þannig er því einnig varið með tegundina, sem einstaklingurinn telst til.“

Upphafsorð bókarinnar eru í sama dúr: „Eins og er, erum við mennirnir drottnar jarðarinnar, við höfum tekið við af spendýrunum. En hvað höldum við lengi þessum völdum? Og hver kemur í okkar stað, þegar tíminn hefur grafið okkur gröf? Um þetta vitum við náttúrlega ekkert, en hitt er áreiðanlega víst, að einhvern tíma kemur sá tími, er nýir kraftar hefjast til valda á yfirborði jarðarinnar; við verðum þá liðnir undir lok, og jarðlögin ein geta borið vott um, að við höfum einhvern tíma verið til.“

Klukkustundir og metrar
Árið 1946 skrifar Árni sjö blaðsíðna hugleiðingu um trú og vísindi, þar sem hann byrjar á að segja náttúruvísindin vera „þau vísindi sem sérstaklega virðast, að minnsta kosti í fljótu bragði, koma í bága við Biblíuna.“

Hann segir ljóst, „að hingað til hafa trú og vísindi, að minnsta kosti náttúruvísindi, ekki getað átt neina samleið, að öðru leyti en því, að vísindamaður og trúmaður hafa oft og einatt verið sameinaðir í einni og sömu persónu.“

Þetta segir hann verða „því einkennilegra þegar þess er gætt, að báðir hafa helgað sér þann sama guð, sem er sannleikurinn. Munurinn er aðeins sá, að trúmaðurinn finnur fullnægingu i fróðleik bókstafsins, en visindamaðurinn krefur náttúruna sagna.“
Hann tekur fram að Biblían sé skrifuð af manna höndum, en náttúran gerð af Guði.

„Það eina, sem við getum í raun og veru treyst, eru okkar eigin skilningarvit. Við þekkjum ekki heiminn út frá nokkru öðru sjónarmiði, en okkar eigin. Heimur trúarinnar og þekkingarinnar eru svo ólíkir, að þá er ekki hægt að bera saman, frekar en klukkustund og metra.“

Hann segir „ekkert því til fyrirstöðu, að vísindamaðurinn geti einnig verið trúmaður, og af því er líka skiljanlegt, að margir af kristninnar mönnum hafa einnig verið vísindamenn. Ég efast ekki um það, að hin fjandsamlega afstaða kirkjunnar til vísindanna hefir orðið henni til tjóns. Ef kirkjan hefði verið vinveitt þeim, sem voru að leita sannleikans, með öllum þeim ráðum, sem mannsandinn kann bezt, þá væri hún öflugri í dag en raun ber vitni. En vel má vera að það megi enn takast að trú og vísindin fái í sameiningu veitt manninum þau verðmæti, sem hann virðist hafa svo mikla þörf fyrir nú á þessum tímum, þegar fátt virðist hafa varanlegt gildi.“

Koffein og kanínur
Árið 1934 segir Árni frá tilraunum sem þýskur líffræðiprófessor, Hermann Stieve, hafði gert á áhrifum koffeins á kanínur.
„Tilraunirnar sýndu, að með því að gefa kanínunum mikið af sterku kaffi, mátti gera þær ófrjóar, eitrið hreif betur á karldýr en kvendýr,“ skrifar Árni. „Á hinn bóginn reyndist kaffi, sem ekkert var í af koffeíni, algerlega skaðlaust.“

Þá leiddu frekari tilraunir í ljós að koffein skaði kynkirtla dýranna fyrr en nokkur önnur líffæri.

„Væru dýrin látin neyta mikils af því, reyndist það einnig skaðlegt nýrunum, hjartanu, lifrinni og þörmunum, en allra fyrst urðu kyn-kirtlarnir fyrir áhrifum þess.“

Ekki vildi Árni fullyrða um notagildi þessara tilrauna hvað varðar áhrif koffeins á manninn, en nefnir þó að þýski prófessorinn telji mögulegt „að koffeín hafi einnig deyfandi áhrif á kynkirtla mannslíkamans.“

Landnám froskanna
Árið 1932 segir Árni frá „landnámsfroskunum“ sem fluttir voru hingað til lands árið 1885 með Botníu, sögufrægu skipi sem sigldi með farþega milli Ísland og Danmerkur.

„Rétt fyrir aldamótin síðustu voru hér á ferð fjórir útlendingar, Dani, Frakki, Englendingur og Þjóðverji.“ Þeir höfðu heyrt af mývarginum hér á landi, og þeir höfðu líka heyrt að hér væru engir froskar.

„Englendingnum hugkvæmdist því að flytja inn nokkura froska, einkum til þess að eyða mývarginum,“ skrifar Árni. Þjóðverjinn tók með sér hundrað froska en Daninn fjörutíu. Búið var um froskana í kössum, sem voru með götum á hliðunum en fóðraðir með hálmi.

Flestir dönsku froskarnir dóu fyrstu nóttina, „líklega af einhverjum næmum sjúkdómi, sem stýrimaður skipsins hafði kallað heimþrá. Flestum hinum froskunum vegnaði vel,“

Þeim sem lifðu af ferðina var sleppt lausum við Laugarnar í Reykjavík þann 19. júní árið 1885, „og spáðu sumir því, að þetta ár myndi verða merkisár í sögu íslands, a. m. k. fyrir flugur og mýflugur. En því miður varð afkoma froskanna verri, en búizt var við.“

Sumir þeirra lifðu reyndar af fyrsta veturinn, „og ef til vill lengur, en áður en langt um leið, voru þeir allir úr sögunni, og Ísland var nú aftur jafn-snautt að froskdýrum og áður hafði verið.“

Silungurinn sem húsdýr
Árið 1939 skrifaði hann grein um silunginn sem húsdýr, „en því nafni getum við með fullum rétti nefnt öll þau dýr, sem við ræktum og hirðum frá því þau fæðast og þangað til þau deyja, til þess að hafa af þeim gagn eða gleði.“

Hann segir að víða í útlöndum sé silungur ræktaður í stórum stíl í sérútbúnum tjörnum.

„Í þessar tjarnir eru látin silungsseiði og þau alin þar upp í fullorðinn eða hálffullorðinn silung. Þessi silungur er í raun réttri húsdýr, þar sem hann er að öllu leyti kominn upp á manninn, og eigandinn getur tekið hann hvenær sem er, og komið honum í verð.“

Hann segir að það séu ekki neinar smáræðis tekjur sem eigandinn getur fengið af silungsstofninum, ef vel tekst til.

„Hér væri verkefni fyrir okkur íslendinga, og mun verða vikið að því seinna.“