fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Flækjustigið í sjávarútvegi er hátt

Guðsteinn Bjarnason
11. mars 2018 kl. 08:00

Anna Björk Theodórsdóttir framkvæmdastjóri og Jón Þrándur Stefánsson stjórnarformaður á skrifstofu Sea Data Center í Sjávarklasanum. MYND/GB

Jón Þrándur Stefánsson segir gagnagrunn Sea Data Center einstakan á heimsvísu. Engin önnur gagnaveita býr yfir þeim upplýsingum sem þar má nálgast.

Ráðgjafafyrirtækið Markó Partners hefur um árabil haldið úti upplýsingaþjónustu fyrir sjávarútveginn, meðal annars á upplýsingavefnum markofish.com. Þar hefur verið hægt verið að fá með einföldum hætti yfirlit yfir markaðsþróun, útflutning, innflutning og ýmsar aðrar lykiltölur í sjávarútvegi.

Í síðasta mánuði var stofnað nýtt fyrirtæki utan um þessa þjónustu, Sea Data Center, og um leið var kynnt nýr vefur, seadatacenter.com. Starfsmenn eru þrír, þau Jón Þrándur Stefánsson stjórnarformaður, Anna Björk Theodórsdóttir framkvæmdastjóri og Bjarni Rúnar Heimisson, sem sinnir forritun og ýmsum tæknimálum.

Jón Þrándur segir fyrirtækið stefna hátt og vaxtarmöguleikarnir séu ekki síst erlendis.

„Við náttúrulega erum að hugsa út fyrir landsteinana,“ segir hann. „Það tengist því að stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi eru erlendis. Okkar markaðir eru þar, stærstu kaupendurnir og neytendurnir.“

Breið flóra
Jón Þrándur segir viðskiptavini Sea Data Center vera nokkuð breiða flóru af fyrirtækjum.

„Þetta eru þessi hefðbundnu fyrirtæki í veiðum og vinnslu. Þetta eru seljendur og kaupendur. Þetta eru opinberir aðilar, eins og til dæmis sjávarútvegsráðuneyti eða fiskistofur frá ýmsum löndum. Líka fólk úr háskólageiranum, bæði þeir sem eru að nýta sér svona tölur í rannsóknum og svo þeir sem nota þetta í kennslu. Í síðustu viku var ég til dæmis með fyrirlestur við Fisktækniskólann um það hvernig svona markaðsgögn nýtast í sjávarútvegi varðandi ákvörðunartöku og annað slíkt. Síðan er það fjármálageirinn, bankar og tryggingafélög og annað slíkt. Það sem kom okkur hvað mest á óvart þegar við fórum af stað með þetta er hvað notendahópurinn er í raun og veru breiður.“

Hins vegar segir hann það geta verið mjög mismunandi hvað hver hópur er að skoða.

„Þess vegna þarf bæði að huga að því hvað það er sem notandinn er að líta til og jafnframt þarf að aðlaga framsetningu að hverjum notanda.

„Enn sem komið er erum við með þetta í þróun, og menn geta alltaf notað tölugögnin sjálf í excel og unnið frekar með það eða þeir geta verið með beintengingu inn í okkar grunna, og þá bætast við ný föll í excel og þú getur búið til þitt skjal og ýtt á refresh og þá uppfærist það miðað við nýjustu tölur. Þú getur gert það svoleiðis í dag, en ef þú ert að fara í gegnum vefviðmótið er þetta fyrirfram svolítið strúktúrerað fyrir notendur.“

Sérhæfing
Hann segir Sea Data Center hafa þá sérstöðu meðal ráðgjafarfyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis, að hafa sérhæft sig í sjávarútveginum.

„Auðvitað eru til ráðgjafarfyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa verið að skoða sérstaklega á ákveðna þætti, en engin sem hefur tekið nákvæmlega þennan sama fókus og við. En það má segja að við séum að taka þá aðferðarfræði og þann hugsunarhátt sem hefur hefur verið notuð mjög lengi í fjármálageiranum og færa yfir á sjávarútveginn. Markmiðið er þá að aðstoða fólk við að taka betur upplýstar ákvarðanir.“

Hann segir upplýsingar af því tagi sem Sea Data Center býður upp á geta hjálpað fyrirtækjum í sjávarútvegi við að efla starfsemina og auka verðmætasköpun.

Hann tekur dæmi af litlu fyrirtæki í veiðum eða vinnslu sem ekki er með eigin söludeild. Slíkt fyrirtæki þarf því að treysta á þá sem sjá um söluna.

Hægt að sannreyna markaðsþróun

„Þeir sjá um að matreiða upplýsingarnar fyrir þig, en hér ertu kominn með möguleika til að sannreyna hvort það sem þeir segja um markaðsþróun sé rétt.“

Slíkt dæmi varð áþreifanlega að raunveruleika nú nýverið þegar einn hinna erlendu viðskiptavina Sea Data Center kom hingað til lands á fund.

„Hann er að selja töluvert af ufsa og nefndi að það væri svo mikill samdráttur á ufsa til Tyrklands. Svo fór hann að skoða það meðan hann var á fundinum hérna hjá okkur, og tölurnar sögðu allt aðra sögu. Við sáum að það hafði verið yfir 30 prósent aukning í Tyrklandi, sem var alls ekki það sem hann hafði frá sínum kaupendum.“

Þannig er hægt að nota upplýsingarnar til að skoða markaðsþróun, skoða í hvaða átt er markaðurinn að fara.

„Einnig er hægt að skoða skiptingu bæði eftir mörkuðum og vörutegundum og öðru slíku, og hvort verðþróun á ólíkum mörkuðum er sú sama eða mismunandi, og þá geturðu tekið ákvörðun um að kannski ættirðu að leggja áherslu á einhvern annan markað eða eitthvað annað.“

Verðmyndun
Upplýsingarnar gagnast einnig til að skoða skiptinguna í verðmyndun, því auðvelt er að bera upphafleg hráefnisverð við bæði útflutningsverðmætið úr landi og endanlegt smásöluverð á markaði ytra.

„Gefum okkur til dæmis að verðið á þorski upp úr sjó sé 300 krónur, sem er bara einhver tala, tilbúið dæmi. Þú kaupir á þessu verði og ert kannski með 40 til 45 prósent nýtingu. Segjum bara 50 prósent nýtingu, þá er kílóverðið komið í 600 krónur. Svo bætist við einhver vinnslukostnaður og flutningskostnaður þannig að söluverð þitt úr landi er 800 krónur. Svo er þetta flutt til Bretlands, og þar getur verið að einhver innflutningsaðili umpakki þessu og gerir kannski eitthvað meira og setur þetta svo í dreifingu í smásölunni. Endanlegt smásöluverð í Bretlandi getur þá verið komið yfir tvö þúsund krónur. Þarna geta menn spurt sig hvort þeir ættu ekki að reyna að fá stærri hluta af smásöluverðinu því þarna er milliliðurinn að taka sitt.“

Öflugir gagnagrunnar
Jón Þrándur segir lykilinn að starfseminni vera öfluga gagnagrunna sem fyrirtækið hefur komið sér upp.

„Við söfnum alls konar upplýsingum, allt frá útflutningstölum og innflutningstölum, verðum á mörkuðum og í smásölu og öðru sliku.“

Hann segir það gríðarlega vinnu að setja upp kerfi til að safna saman þessum upplýsingum og síðan þarf að viðhalda þessu öllu.

„En síðan er það framsetningin, og þá erum við með veflausn þar sem við gerum notendum kleift að komast nær upplýsingunum með bara fáum smellum á músinni þannig að það sé þægilegt fyrir þá að fá upplýsingarnar á stöðluðu formati. Þannig að hluti af þessu sem við gerum er að taka þessar upplýsingar, greina þær og staðla þær þannig að þær séu samanburðarhæfar. Síðan er að setja þær fram á þann hátt að það sé þægilegt fyrir notendur að lesa út úr þessu þær upplýsingar sem þeir þurfa. Þannig að það má segja að við séum í þeim bisness að umbreyta gögnum yfir í upplýsingar.“

Næsta skref notandans er að bera saman gögn úr ýmsum áttum.

„Þannig er hægt að fá enn frekari greiningar og upplýsingar um hvað er að gerast á mörkuðum. Það er þá alltaf spurning um það eftir hverju hver notandi er að leita. Hvaða spurningum hann vill fá svarað.“

Frá pappír yfir í PDF og áfram
Starfsemina má rekja til þess þegar Markó Partners hóf fyrir um fimm árum að gefa út útflutningsskýrslur fyrir sjávarútveg.

„Fyrst var það allt gefið út á prentuðu formi, en fljótt kom í ljós að með því að gefa þetta út á pappír var það oft þannig að gögnin voru orðin svolítið gömul þegar þau komu í hendurnar á neytandanum. Þá var farið út í að koma þessu í pdf-format til að geta komið þessu hraðar í tölvupósti til notenda. Við ákváðum síðan að taka strax næsta skref, sem var að reyna að koma þessum útflutnings- og innflutningstölum nær rauntíma, og þá var farið út í þróun á þessari upplýsingaveitu sem hefur verið í þróun í á fjórða ár.“

Í febrúar voru síðan gerðar þær breytingar að kynnt var nýtt nafn samhliða nýju eignarhaldi.

„Þetta er ekki lengur hluti af Markó Partners heldur orðið sjálfstætt fyrirtæki með breyttu eignarhaldi þar sem starfsmenn eru lykileigendur og síðan kemur þriðji aðilinn inn sem hluthafi. Það er tæknifyrirtækið Kóði sem hefur verið með Kelduna, sem fjármálageirinn notar. Þeir hjálpa til við frekari tækniþróun og annað slíkt.“

Jón Þrándur segir þetta hafa verið gert til að geta einbeitt sér betur að sjávarútveginum.

„Meðan þú ert enn hluti af stærra ráðgjafarfyrirtæki þá er fókusinn ekki alveg eins skýr.“

Spennandi geiri
Jón segir mikil tækifæri vera fyrir hendi í þessum geira.

„Sjávarútvegur er mjög spennandi grein eins og við þekkjum. Þetta er alþjóðleg grein og það er meira af sjávarútvegstengdum vörum að ferðast um heiminn heldur en af nokkurri annarri vöru. Því fiskurinn er kannski veiddur norður í Ballarhafi, svo er hann fluttur eitthvert og unninn og svo getur hann verið fluttur heimshornanna á milli. Svo endar hann uppi á diski einhvers staðar allt annars staðar, þannig að flækjustigið í sjávarútvegi er mjög mikið. Og ef við berum saman þennan hefðbundna sjávarútveg við það sem við erum að sjá til dæmis í fiskeldi, laxinn þá sér í lagi, þá sjáum við að laxeldið er komið miklu lengra í að nýta sér svona aðferðafræði, greiningar og gögn, enda eru þetta mjög stór skráð fyrirtæki sem eru í þeim bransa. Það sem við vildum gera er að taka þessa aðferðafræði frá fjármálageiranum, koma þessu yfir í sjávarútveginn af því við sjáum að það eru tækifæri þarna til að aðstoða fólk við að hafa aðgang að betri upplýsingum til ákvarðanatöku. Við teljum að betur upplýstur markaður sé betri markaður, sem leiðir þá til frekari vaxtar.“

Sprotafyrirtæki
Jón Þrándur segist líta mjög björtum augum fram á veginn.

„Auðvitað erum við ennþá svolítið sprotafyrirtæki, erum að taka fyrsta skrefið við að koma þessu áfram. Við erum komin með mjög góðan kúnnabasa. Öll stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi eru kúnnar hjá okkur, og svo erum við með mörg fyrirtæki erlendis.“

Hann segist telja að um sextíu prósent viðskiptavinanna séu erlendis en 40 prósent íslenskir.

Um miðjan janúar flutti fyrirtækið inn í húsnæði Sjávarklasans við höfnina í Reykjavík.

„Strax og við komum hingað í húsið sáum við að hér innanhúss er líka mjög öflugt tengslanet, og það kemur eflaust til með að styrkja það sem við erum að gera. Fyrir utan það hvað þetta er skemmtilegt umhverfi, og þá tala nú ekki um þegar kominn verður matarmarkaður hérna niðri.“

Í næsta mánuði tekur Sea Data Center þátt í sjávarútvegssýningunni í Brussel, sem er ein af stærstu sýningum í sjávarútvegi. Sýningin stendur yfir í þrjá daga og von er á um 50 þúsund manns.

„Við verðum með bás þar og ætlum að kynna nýtt nafn og nýja stefnu og nýjan fókus í því sem við erum að gera,“ segir Jón Þrándur.

„Við erum með töluvert af erlendum kúnnum og reiknum með að hitta einhverja af þeim. Þá setjumst við niður með þeim ef tækifæri gerst, hlustum á hvað þeir eru að gera og hverjar eru þeirra þarfir varðandi tölulega greiningu og slíkt.“