mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framkvæmdastjóri LÍÚ vill aukinn makrílkvóta án tafar

14. ágúst 2009 kl. 11:57

,,Makríll er í mun meira mæli innan íslensku lögsögunnar en gert var ráð fyrir þegar reglugerðin var sett í mars og rétt er að auka veiðiheimildir íslenskra fiskiskipa í makríl án tafar,” segir Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í grein í nýjustu Fiskifréttum.

Í greininni segir Friðrik m.a.: ,,Íslensk fiskiskip veiddu á síðasta ári 112 þúsund tonn af makríl. Fyrr á þessu ári setti þáverandi sjávarútvegsráðherra reglugerð um makrílveiðar íslenskra skipa. Í henni var kveðið á um endurskoðun veiðanna þegar aflinn hefði náð 112 þúsund tonnum. Makríls hefur orðið vart í miklum mæli allt í kringum landið á undanförnum vikum. Þegar í júlíbyrjun var aflinn orðinn ríflega 90 þúsund tonn en á síðasta ári veiddist makríllinn að mestu leyti í júlí og ágúst. Þann 8. júlí sl. voru settar þær skorður að makrílinn mætti aðeins veiða sem meðafla með norsk-íslenskri síld. Ljóst er að makríll er í mun meira mæli innan íslensku lögsögunnar en gert var ráð fyrir þegar reglugerðin var sett í mars og rétt er að auka veiðiheimildir íslenskra fiskiskipa í makríl án tafar.”

Friðrik vísar þeim fullyrðingum á bug að makrílveiðar Íslendinga séu ólögmætar. Nágrannaþjóðunum beri hins vegar skylda til að semja við okkur um veiðarnar. ,,Norðmenn og ESB hafa með órétti útilokað okkur frá þátttöku í stjórn veiða úr makrílstofninum í meira en áratug,” segir Friðrik í greininni.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.