föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Furðulegur málflutningur andstæðinga hvalveiða, segir LS

29. janúar 2009 kl. 15:27

,,Landssamband smábátaeigenda hefur til fjölda ára hvatt eindregið til þess að veiðar á stórhvelum í atvinnuskyni verði hafnar á nýjan leik. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra er því fagnaðarefni. Hún er í fullu samræmi við reynslu veiðimanna þess eðlis að hvölum hafi stórfjölgað við landið. Þeir eru og þeirrar skoðunar að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sé allt of íhaldssöm.”   

Svo segir í ályktun stjórnar Landssambands smábátaeigenda. Síðan segir:

,,Málflutningur andstæðinga hvalveiða er á köflum athyglisverður.  Þar fara fremst í flokki Náttúruverndarsamtök Íslands, en þau hafa harðlega mótmælt ákvörðun sjávarútvegsráðherra og kallað hana „skemmdarverk gagnvart landi og þjóð" ásamt því að með henni skaði ráðherra ímynd Íslands.

Í þessu sambandi er vert að rifja upp viðbrögð þessara sömu samtaka frá því í fyrrasumar þegar þau skoruðu á sjávarútvegsráðherra að fara í einu og öllu eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi aflaheimildir í þorski.  Álit veiðimanna þess eðlis að ástand þorskstofnsins sé hvergi nærri jafn lélegt og Hafrannsóknastofnunin telur sig vita, virtist ekki koma Náttúruverndarsamtökunum nokkurn skapaðan hlut við.  Þar var engri tilfinningasemi til að dreifa, hvorki gagnvart veiðimönnum né sjávarþorpum.

Í kjölfar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um hvalveiðar eru Náttúruverndarsamtökin mætt gallvösk og finna veiðunum allt til foráttu.  Nú bregður hins vegar svo við að hvergi er minnst á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.  Ráðgjöf hennar er 100 hrefnur og 150 langreiðar - nákvæmlega það sem veiðileyfi hefja nú verið gefin út fyrir.  Í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar segir, varðandi ráðgjöfina, að „um mjög varfærna veiðiráðgjöf" sé að ræða.  Í áskorun Náttúruverndarsamtakanna er hvatt til „ýtrustu varfærni".

Það hlýtur að teljast í meira lagi undarlegt að Náttúruverndarsamtök Íslands krefjast þess í einu orðinu að farið sé að „vísindalegri ráðgjöf" viðkomandi stofnunar, en minnast í engu á slíka aðferðafræði í hinu næsta.

Hvort þetta sé til þess fallið að efla ímynd landsins skal ósagt látið," segir að lokum í ályktun Landssambands smábátaeigenda.