sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrirkomulagi vigtunar verður breytt

5. desember 2017 kl. 14:42

Kristján Þór Júlíusson, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. MYND/HAG

Viðurlög vegna brottkasts og vigtunarmála verða hluti af væntanlegri endurskoðun laga um umgengni nytjastofna sjávar.

Á vorþingi verður lagt frumvarp um breytingar á fyrirkomulagi vigtunar á fiski. Þetta kemur fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við fyrirspurn frá Kjarnanum, að því er Kjarninn greinir frá.

Þetta eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við umfjöllun Kveiks og fréttastofu RÚV um brottkast og vigtun afla, þar sem fram kom að eftirliti Fiskistofu hafi verið ábótavant.

Frumvarpið verður liður í endurskoðun laga um umgengni nytjastofna sjávar, sem upphaflega eru frá árinu 1996, og verða viðurlög vegna brottkasts og vigtunar hluti af þeirri endurskoðun. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, mun leggja fram frumvarpið á vorþingi.

Kjarninn greinir jafnframt frá því að til greina komi að taka starfsemi Fiskistofu til sérstakrar endurskoðunar á næsta ári en engin áform séu um að endurskoða hinn umdeilda flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar.