mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrsta loðnan veidd við Noreg

25. janúar 2009 kl. 11:04

eftir fimm ára loðnuveiðibann

Norsku loðnuskipin Brennholm og Mögsterfjord eru á leið til hafnar í Noregi með loðnu sem þau fengu um 100 sjómílur NNV af Nordkapp. Þetta markar tímamót því fimm ár eru síðan síðast var veidd loðna í Barentshafi í atvinnuskyni, þar sem veiðibann hefur ríkt þennan tíma.

Fyrrnefnda skipið kom með 1.000 tonna farm og hið síðarnenda með 740 tonn. Um var að ræða stóra og fallega loðnu, 37-40 stk. í kílóinu. Búið er að bjóða í farmana og fékk annað skipið 2,38 NOK fyrir kílóið (43 ISK) og hitt 1,99 NOK (36 ISK), að því er fram kemur á vef Fiskeribladet/Fiskaren í morgun.

Hrognahlutfall í loðnunni er lágt eða 4-6%, eins og vænta má á þessum árstíma.

Norska loðnan fer til vinnslu og verður í samkeppni á mörkuðum við íslenska loðnu sem vonandi fer brátt að veiðast, en Íslendingar notið góðs af því á undanförnum árum að loðnuveiðibann hefur verið í Barentshafi.