sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gefur Fiskistofu heimild til myndavélaeftirlits

25. apríl 2018 kl. 13:34

Myndbönd sem sýnd voru í Kveik og fréttum Sjónvarps í nóvember og sýndu brottkast á afla um borð í skipinu Kleifabergi RE eru enn til rannsóknar hjá Fiskistofu.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, hyggst innan fárra vikna kynna frumvarp sem veitir Fiskistofu heimild til að notast við myndavélar í eftirliti stofnunarinnar.

Frá þessu segir í frétt Rúv en slíkt eftirlit er talið nýtast stofnuninni vel við að koma upp um brottkast og vigtarsvindl, sem stofnunin hefur ekki talið sig geta sinnt sem skyldi. Um þetta fjallaði fréttaskýringarþátturinn Kveikur ítarlega um í nóvember.

Í fréttinni segir að lagabreytingar sem ráðherra hafði boðað á umdeildum vigtunarlögum, bíða hins vegar haustsins og niðurstöðu úttektar Ríkisendurskoðunar á starfsemi Fiskistofu. Ráðherra sagði þó í viðtali við Kveik í desember að hann ætlaði sér að mæla fyrir breytingum á lögum um vigtun sjávarafla nú á vorþingi, sem mun ekki ganga eftir. Kristján Þór sagðist hins vegar í samtali við Kveik í byrjun vikunnar ekki ætla að bíða með frumvarp sem heimila mun Fiskistofu að nýtast við myndavélaupptökur við eftirlit sitt með brottkasti og vigtarsvindli.

Rafræn vöktun

Fiskifréttir sögðu frá því í byrjun janúar að ef farið er að viðeigandi lögum og reglum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, auk reglna um rafræna vöktun, er heimilt að notast við rafrænt eftirlit í eigna- og öryggisvörsluskyni um borð í íslenskum fiskiskipum. Slíkt er þegar gert hjá mörgum fyrirtækjum hérlendis.

Þetta kom fram í svari Persónuverndar við fyrirspurn Fiskifrétta um notkun eftirlitsmyndavéla um borð í íslenskum fiskiskipum. Í svari Persónuverndar kemur einnig fram að vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um að setja upp eftirlitsmyndavélar um borð í fiskiskipum, til að koma í veg fyrir brottkast á afla, þá ákvað Persónuvernd að eigin frumkvæði að senda Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Fiskistofu bréf (24. nóvember) þar sem minnt var á þau ákvæði laga sem eiga við um slíkt eftirlit. Persónuvernd fór þess á leit í bréfi sínu að SFS kæmi þeim upplýsingum á framfæri við öll fyrirtæki innan vébanda samtakanna.

Tilefni bréfsins er ítarleg umfjöllun í Kveik um brottkast.

Brottkast enn til rannsóknar

Í frétt Rúv segir jafnframt:

„Myndbönd sem sýnd voru í Kveik og fréttum Sjónvarps í nóvember og sýndu umfangsmikið og ítrekað brottkast á afla um borð í aflaskipinu Kleifabergi RE eru enn til rannsóknar hjá Fiskistofu. Útgerðarfélagið Brim, sem á og gerir út Kleifabergið, kærði ótilgreinda aðila, eftir að birt var myndband frá sumrinu 2016 sem sýndi hvernig hausuðum og slógdregnum þorski var hent í sjóinn, að því er sjónvarvottur sagði Kveik, í tonnavís. Útgerðin taldi myndbandið sýna spjöll á eigum útgerðarinnar, fiski sem aldrei ætti að henda. Engin slík kæra var þó lögð fram vegna myndbanda frá árunum 2008-2011 sem sýndu miklu magni af makríl, karfa, ufsa og þorski, hent í nokkur skipti um borð í Kleifaberginu. Samkvæmt heimildum Kveiks hefur einstaklingurinn sem tók brottkastið sumarið 2016 upp á myndband, þegar vitnað um tilurð þess hjá Fiskistofu. Frásögn hans sé á annan veg en útgerðarinnar. Brottkastið hafi verið algengt og honum blöskrað meðferð aflans og hann því tekið eitt slíkt tilfelli upp á myndband.“