laugardagur, 19. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður gangur í fiskiðjuveri HB Granda á kvótaárinu

20. ágúst 2018 kl. 12:00

Gísli Kristjánsson. Mynd/HB Grandi

Vinna úr 550 til 600 tonnum á viku.

Góður gangur hefur verið bolfiskvinnslu HB Granda í fiskiðjuverinu Norðurgarði í Reykjavík á kvótaárinu sem nú er að ljúka.

Frá þessu segir í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.

Um 160 manns starfa að jafnaði við vinnsluna og hefur verið unnið úr um 550 til 600 tonnum af ufsa, karfa og þorski á viku.

Gísli Kristjánsson, framleiðslustjóri HB Granda, segist í viðtali vera ánægður um með gang mála á kvótaárinu. Veiðin hafi verið góð og allt hafi gengið upp í vinnslunni.

„Við upphaf kvótaársins voru bolfiskvinnslurnar í Reykjavík og á Akranesi sameinaðar á einum stað í Norðurgarði. Þetta skref var mjög krefjandi verkefni fyrir alla sem koma að landvinnslunni en sameining hefur gengið mjög vel og reyndar er árangurinn vonum framar,“ segir Gísli.

HB Grandi hefur um árabil verið leiðandi í því að nýta nýja tækni í fiskvinnslunni og liður í þeirri þróun var að fjárfesta enn frekar í nýjum búnaði þegar ljóst varð að vinnslurnar í Reykjavík og á Akranesi yrðu sameinaðar.

„Í byrjun kvótaársins var fjárfest í nýrri vatnsskurðarvél fyrir beingarðsskurð á karfaflökum sem hefur reynst mjög vel. Einnig var keyptur nýr ferskfiskpökkunarflokkari fyrir bolfisk til viðbótar við núverandi búnað, en það var nauðsynleg ráðstöfun til þess að auka afköstin og flæðið í gegnum húsið,“ segir Gísli en hann upplýsir að í fiskiðjuverinu á Norðurgarði sé unnið á einni vakt á sólarhring. Daglegur vinnutími er átta, tíu eða 12 klukkustundir. Tíu tíma vinnudagar séu ekki óalgengir hjá starfsfólkinu.

„Núna í sumar erum við búin að vera með hátt í 60 sumarstarfsmenn í vinnslunni hjá okkur. Það hefur gengið mjög vel og verið nóg að gera,“ segir Gísli.