föstudagur, 22. mars 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður túr hjá Höfrungi III

14. nóvember 2018 kl. 16:35

Höfrungur III AK

Var með rúmlega 900 tonna afla eftir 25 daga á veiðum.

„Heilt yfir gekk allt að óskum. Við vorum með rúmlega 900 tonna afla á 25 dögum. Lengst var veðrið gott og aflinn sömuleiðis en í lokin var komin haugabræla og aflabrögðin voru í samræmi við það síðustu fjóra sólarhringana,“ segir Arnar Haukur Ævarsson, í viðtali á heimasíðu HB Granda en hann var skipstjóri á frystitogaranum Höfrungi III AK í síðustu veiðiferð.

Arnar Haukur segist hafa byrjað á að leita að djúpkarfa.

„Við byrjuðum  veiðar í Skerjadjúpinu og færðum okkur svo út í Mykur en svo kallast álarnir fyrir utan Skerjadjúpið.“

Að sögn Arnars Hauks lá leiðin næst á Fjöllin eða hin hefðbundnu heimamið togara HB Granda.

„Þar fengum við gullkarfa og ufsa og aflabrögðin voru góð. Eftir það ákvað ég að fara norður á Vestfjarðamið. Áður en til þess kom fórum við inn til Reykjavíkur í millilöndun eftir tíu daga úthald með um 350 tonna afla.“

Á Vestfjarðamiðum var aflinn góður.

„Við fengum ufsa og þorsk á Halanum og gullkarfa í Víkurálnum. Einnig fengum við dálítið af ýsu á Hornbanka. Þegar þorskskammtinum fyrir veiðiferðina var náð ákvað ég að enda veiðiferðina í Skerjadjúpinu. Því miður var komin bræla þegar við komum þangað. Við vorum þó á svæðinu í fjóra sólarhringa en vegna veðurs var erfitt að stunda veiðar,“ segir Arnar Haukur í viðtalinu.

Höfrungur III er nú að veiðum við suðausturströndina og segir Haraldur Árnason skipstjóri að hann hafi ætlað norður á Vestfjarðamið um leið og skipið lét úr höfn. Þá var hins vegar komin bræla á miðunum og hefur hún staðið linnulaust í heila viku. Það var fyrst í dag að veður byrjaði að ganga niður fyrir vestan.