fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafnir kolefnisjafna með trjárækt

Svavar Hávarðsson
19. mars 2018 kl. 07:00

Grundartangahöfn er byggð í landi Klafastaða. Aðsend mynd

Hafnaryfirvöld í tveimur af stærstu höfnum landsins freista þess að kolefnisjafna útblástur

Faxaflóahafnir undirrituðu 10 ára samstarfssamning við Skógræktina í september síðastliðnum.  Ræktaður verður skógur í nafni fyrirtækisins í landi Klafastaða í Hvalfjarðarsveit, sem er í eigu Faxaflóahafna sf. Áætlað er að planta einum til þremur hektara ár hvert, til að kolefnisjafna útblástur frá eigin starfsemi. Annað verkefni með sama markmið er komið á rekspöl hjá Akureyrarhöfn.

Samstarfssamningur til tíu ára milli Faxaflóahafna sf. og Skógræktarinnar var undirritaður í september.

Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, segir að Faxaflóahafnaverkefnið sé þannig upp byggt að Skógræktin aðstoði Faxaflóahafnir við að rækta skóg á landi Faxaflóahafna að Grundartanga. Framlag Skógræktarinnar sé einkum fagleg ráðgjöf, meðal annars í formi ræktunaráætlunar þar sem land er kortlagt með tilliti til gróðurs, trjátegundir valdar og við undirbúning lands og gróðursetningu.

„Einnig eru í áætluninni tekin frá þau svæði sem ekki verður gróðursett í, svo sem þar sem fornleifar er að finna og önnur verndarsvæði. Verkefnið stendur þannig að verið er að gera ræktunaráætlunina. Sennilega verður byrjað að gróðursetja í sumar,“ segir Þröstur sem bætir við að Skógræktin komi ekki að að Akureyrarverkefninu heldur Skógræktarfélag Eyjafjarðar.

Munu eiga skóginn

Ræktunaráætlun Skógræktarinnar lítur að annast úttekt á nauðsynlegri friðun lands, slóðagerð, undirbúningi við gróðursetningu (jarðvinnslu), plöntukaup og flutning þeirra, gróðursetningu áburðargjöf og eftirlit/úttektir. Skógræktin  mun síðar skila árlega til Faxaflóahafna skýrslu þar sem fram kemur framvinda gróðursetningar og áætluð kolefnisbinding.  Með þessari skógrækt verður kolefni bund­ið í skógi til næstu fimmtíu ára á móti því sem losnar vegna reksturs Faxaflóahafna.

Þeg­ar full gróðursett verður í það land er ætlunin að gróðursetning fyrir Faxaflóahafnir fari fram á  landi í umsjón Skóg­ræktarinnar á Vesturlandi. Faxaflóahafnir eiga skóginn sem ræktaður verður á landi í þeirra eigu en Skógræktin eignast þann skóg sem vex upp á löndum í umsjón hennar.

Hugsað til langs tíma

Skógræktin sagði frá því á sínum tíma að gert er ráð fyrir í samningnum að Faxa­flóa­hafnir greiði 1,5 milljónir króna árlega fyrir gróðursetningu næstu tíu árin. Skógræktin skilar Faxaflóa­höfnum skýrslu í lok hvers árs þar sem fram kemur framvinda gróðursetninga og áætluð kolefnisbinding.

„Skógræktin hefur áður gert hliðstæða samn­inga um kolefnisbindingu með skóg­rækt og þar ber helst að nefna þrjá samn­inga við Landsvirkjun sem eru með svipuðu sniði og sá sem nú hefur verið gerður við Faxaflóahafnir. Fleiri hafa sýnt áhuga á að fela Skógræktinni bindingu á móti þeirri losun sem verður vegna viðkomandi starfsemi og einnig er skemmst að minn­ast samnings Skógræktarinnar við nýstofnað félag, Landsskóga, sem hyggst bjóða fyrirtækjum í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum að binda kolefni í skógi og fela Skógræktinni framkvæmdina,“ segir í frétt Skógræktarinnar í september.

2.000 tré

Morgunblaðið sagði nýlega frá skógræktarátaki Akureyrarhafnar. Þar mun höfnin greiða fyrir tvö þúsund tré á ári vegna þeirra skemmtiferðaskipa sem hafa viðdvöl í bænum. Eins býðst farþegum að greiða fyrir sinn hlut í losuninni og kostar hvert tré tvær evrur, segir í frétt Morgunblaðsins og að það framtak hafi vakið athygli út fyrir landsteinana og voru farþegar duglegir að leggja sitt af mörkum. „Við hyggjumst bæta í á þessu ári og fjölga trjám í átakinu,“ segir Pétur. Verkefnið er unnið í samstarfi við Akureyrarbæ, Vistorku og Skógræktarfélag Eyfirðinga.